Nýtt naut í hóp reyndra nauta

Flóði 15047
Flóði 15047

Fagráð í nautgriparækt fundaði í morgun og tók ákvörðun um hvaða reyndu naut verða í notkun næstu vikur en nýtt kynbótamat fyrir afurðir og frumutölu var keyrt núna í september. Ákveðið var Flóði 15047 komi til dreifingar sem reynt naut. Aðrar breytingar á dreifingu reyndra nauta voru ekki gerðar en úr nautaskrá falla þeir Sjarmi 12090, Jörfi 13011, Hálfmáni 13022, Bárður 13027 og Ýmir 13051 vegna þess að sæði úr þeim er uppurið.

Flóði er væntanlegur í kúta frjótækna um land allt við næstu áfyllingar.

Að þessu sinni var ekki hægt að taka ákvörðun um fleiri naut úr 2015 árgangi þar sem enn vantar á upplýsingar um mjaltir. Þar er einkum um að kenna slökum og seinum skilum á mjaltaathugunum.

Upplýsingar um reynd naut í notkun hafa verið uppfærðar á nautaskra.net auk þess sem nýja kynbótamatið er uppfært í Huppu fyrir alla gripi.