Röðun hrossa á Rangárbökkum 27. til 31. maí

Skráningar á vorsýningar ganga vel og eru nú þegar 7 af 12 sýningum fullar. Enn er þó nóg eftir af plássum og skráningarfrestur er til 24. maí.

Á fyrstu sýninguna á Rangárbökkum, vikuna 27. til 31. maí eru 120 hross skráð. Dæmt verður frá kl. 8:00 til 19:30. Er það von okkar að með aðeins breyttu fyrirkomulagi takist okkur að halda tímasetningar betur en oft hefur verið. Til þess að það gangi þurfa allir að leggja sig fram, dómarar, eigendur, sýnendur og annað starfsfólk. Samstarf þessara aðila gengur lang oftast frábærlega og ber að þakka það. Flestir vita mætavel hvað þarf til að sýningarnar gangi sem best fyrir sig. Einu viljum við skerpa á og það er að biðja sýnendur og eigendur að mæta tímanlega en það hefur stundum viljað brenna við að hross í morgunholli mæti seint. Mælingar hefjast kl. 7:50 og þá þurfa hross að vera mætt og tilbúin í mælingu, þannig að dómstörf geti hafist kl. 8:00. Sama á við um hollið eftir hádegið, dómar hefjast kl. 12:30 og þá þurfa hross að vera mætt í mælingu kl. 12:20 og fyrstu hross eftir kaffið þurfa að vera mætt 15:50. Endilega kæru sýnendur mætið tímanlega því það kemur sér vel fyrir alla aðila. Ef hross eru að detta út með skömmum fyrirvara er gott að sýningastjóri sé látinn vita, mögulega er þá hægt að færa til hross úr öðrum hollum svo ekki myndist eyður.

Röðun hrossa fyrir fyrstu kynbótasýningu vorsins á Rangárbökkum hefur verið birt hér á síðunni. Eins og þegar hefur komið fram hefjast dómar stundvíslega mánudaginn 27. maí kl. 8:00 (mælingar 7:50) og sýningunni lýkur með yfirlitssýningu föstudaginn 31. maí.

Sjá nánar: 
Röðun hrossa á kynbótasýningum

/okg