Samdráttur í sauðfjársæðingum annað árið í röð

Drjúgur 17-808
Drjúgur 17-808

Sauðfjársæðingavertíðinni lauk þann 21. desember síðastliðinn. Þá höfðu verið sendir út til sauðfjárbænda 27.077 skammtar af sæði. Frá Þorleifskoti fóru 16.005 skammtar en Borgarnesi 11.072 skammtar. Veturinn 2017 voru útsendir skammtar 33.200 og er þetta því um 18% samdráttur á milli ára og ef miðað er við árið 2016 þá er þetta um 40% samdráttur. Samdrátturinn virðist mismikill eftir landshlutum en hann er hvað mestur á Suðurlandi og Vesturlandi.
Það er nokkuð ljóst að þeir erfiðleikar sem greinin stóð frammi fyrir eftir að afurðaverð hrundi haustið 2017 hefur bein áhrif á umsvif ræktunarstarfsins. Þessi staða hefur vissulega neikvæð áhrif á rekstur sæðingastöðvanna og getur til lengri tíma dregið úr kynbótaframförum. Hér þarf því að snúa vörn í sókn.

Hrútar frá Hesti vinsælastir
Sá hrútur sem fékk mesta notkun þennan veturinn var Drjúgur 17-808 frá Hesti en úr honum voru sendir út 2.020 skammtar. Þetta er nokkuð meiri notkun en mest notaði hrúturinn fékk 2017 en þá voru sendir út 1.835 skammtar úr Mávi 15-990 frá Mávahlíð. Næstflestir skammtar voru útsendir úr Durt 16-994 frá Hesti. Af kollóttu hrútunum var mest sent út af sæði úr Guðna 17-814 frá Miðdalsgröf, 955 skammtar, en þeir Dúlli 17-813 frá Miðdalsgröf, Reykur 14-812 frá Árbæ og Kollur 15-983 frá Árbæ raða sér síðan næstir á listann þar á eftir allir með svipaða notkun.

Úr eftirtöldum hrútum voru sendir út 1.000 skammtar eða meira.
Drjúgur 17-808 frá Hesti (2.020 skammtar)
Durtur 16-994 frá Hesti (1.685 skammtar)
Fáfnir 16-995 frá Mýrum 2 (1.571 skammtar)
Klettur 13-962 frá Borgarfelli (1.450 skammtar)
Fjalldrapi 15-805 frá Hesti (1.135 skammtar)
Gunni 15-804 frá Efri-Fitjum (1.120 skammtar)
Tvistur 14-988 frá Hríshóli (1.080 skammtar)
Mávur 15-990 frá Mávahlíð (1.060 skammtar)
Spakur 14-801 frá Oddsstöðum (1.025 skammtar)

Fallnir höfðingjar
Þeir hrútar sem hafa þegar verið felldir eða búið er að ákveða að fella, m.t.t. aldurs, heilsu og notkunar eru: Kölski 10-920, Borkó 11-946, Kraftur 11-947, Malli 12-960, Brúsi 12-970, Klettur 13-962, Bergsson 14-986 og Drangi 15-989.

/ee