Sauðfjárbændur athugið – Flögg í haustbók

Við viljum vekja athygli á því að í einhverjum tilfellum hafa flögg lamba ekki skilað sér inn í prentaðar haustbækur. Það er þó vert að taka fram að allar niðurstöður frá Íslenskri Erfðagreiningu sem og Fjárvísgreiningar sem byggja á upplýsingum beggja foreldra koma fram í bókinni, en einhver misbrestur er á að flögg sem eru eingöngu byggð á arfgerð annars foreldris skili sér.

Við viljum því benda bændum, sem hafa verið að nota arfhreina ARR hrúta eða hrúta sem eru arfblendnir Verndandi/Mögulega verndandi og eiga lömb sem hafa fengið flagg í Fjárvís, á þeim grunni að vera á varðbergi því mögulega hafa ekki allar upplýsingar um flögg skilað sér inn í haustbók. Allar upplýsingar um arfgerðir og flögg eru hins vegar uppfærðar og réttar inn í Fjárvís og því ávalt hægt að athuga stöðu gripa þar.

Framsetning arfgerðagreininga og arfgerðaspár út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir í Fjárvís eru umfangsmiklar og flóknar keyrslur sem byggja á mörgum þáttum þar sem markmiðið er að setja fram upplýsingar um alla þá gripi sem mögulegt er hverju sinni.

Það er miður að einhver hluti þeirra hafi ekki skilað sér yfir á prentað form í haustbókunum en við vinnum að því að finna lausn á því. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

 

/hh