Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur ákveðið að standa fyrir fræðslufundaröð fyrir sauðfjárbændur sem hefur fengið nafnið Sauðfjárbóndinn. Áætlað er að fundirnir verði tíu talsins og dreifist á eitt ár. Fyrsti fundurinn verður haldinn síðari hluta janúar 2026. Þetta verða allt fjarfundir (Teamsfundir) nema einn fundanna sem verður verklegur þar sem farið verður yfir mat á lömbum að hausti.
Helstu efnisþættir verða þessir:
- Jarðrækt á sauðfjárbúum
- Fóðrun – frá miðjum vetri og fram yfir sauðburð
- Sjúkdómar – með sérstakri áherslu á vanhöld lamba
- Kynbætur – með sérstakri áherslu á ræktun gegn riðu
- Notkun Fjárvís og örmerkingar
- Sauðfjárdómar
- Fóðrun að hausti - með áherslu á haustbeit lamba og samhengi haustfóðrunar og frjósemi ánna.
- Fjárhús, vinnuaðstaða og vinnuhagræðing
- Loftlagsvænn landbúnaður
- Rekstur og afkoma
Framsögumenn/leiðbeinendur á fundunum koma flestir úr röðum starfsmanna Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins en auk þeirra ætla þeir Jóhannes Sveinbjörnsson og Unnsteinn Snorri Snorrason frá Landbúnaðarháskólanum að leggja hönd á plóg sem og Dýralæknaþjónusta Suðurlands.
Fyrir hvern fund fá þátttakendur einföld úrlausnarefni sem tengjast búi þeirra. Verkefnin eru hugsuð til undirbúnings fyrir hvern fund en ekki er um nein skil að ræða. Fundirnir verða haldnir að degi til, ýmist frá kl. 10-12 eða 13-15 en verða jafnframt teknir upp. Áætlað er að halda verklega lambadómafundinn í lok ágúst eða fyrstu daganna í september.
Skráning fer fram á vef RML en einnig er hægt að hringja í síma 516 5000 og óska eftir skráningu. Þátttökugjald er aðeins 36.000 krónur + vsk á bú en verkefnið er styrkt af Fagfé sauðfjárræktarinnar. Einungis er í boði að kaupa allan pakkann en ekki staka fundi. Þeir sem standa fyrir búrekstri á viðkomandi býli geta tekið þátt fyrir eitt gjald.
Ef næg þátttaka fæst, ræðst nánara fyrirkomulag af umfanginu og hvernig þátttakendur dreifast um landið. Miðað er við að þátttökubú á hverjum fundi verði að hámarki fjörutíu. Verklega fundinum verður skipt í minni hópa. Ef svo færi að skráðir þátttakendur yrðu fleiri en fjörutíu verður hugsanlega boðið upp á fleiri en einn fund um hvert fundarefni. Þessu er þó ekki hægt að lofa að svo stöddu og því gildir hér reglan „Fyrstur kemur fyrstur fær“. Nánari upplýsingar veitir Árni B. Bragason, ab@rml.is.
Skráningarfrestur er til og með 9. janúar 2026.
Sjá nánar:
Skráning í Sauðfjárbóndann
/okg