Skjáborð og skýrslur bónda í Huppu

Dæmi um skjáborð í Huppu.
Dæmi um skjáborð í Huppu.

Nú hefur verið opnað á tvo nýja hluta í Huppu fyrir þá notendur sem greiða fyrir fullan aðgang að kerfinu. Þetta eru annars vegar Skýrslur bónda sem sjást nú sem nýr valmöguleiki undir Skýrslur og hins vegar Skjáborð sem er nú í valmyndinni fyrir neðan Skýrslur. Báðir þessir hlutar eru hugsaðir þannig að hver bóndi getur sett saman sína útgáfu eftir hentugleikum til að fá betri yfirsýn yfir sitt bú.

Skjáborð

Til að búa til nýtt skjáborð þarf að byrja á því að gefa því nafn og smella á Bæta við. Þá opnast síða sem heitir Skjáborðs stillingar og á við þetta tiltekna skjáborð. Með því að smella á Bæta við einingu opnast listi yfir þær einingar sem eru í boði til að setja inn í skjáborðið. Eining er valin með að smella á hana í listanum og velja að bæta við einingu (neðst hægra megin). Hægt er að raða einingunum upp með að draga þær til á skjáborðinu eftir að þær hafa verið valdar, og sjá hvernig þær líta út með því að smella á Forskoða uppsetningu. Þegar búið er að velja einingar og raða þeim upp eins og hver og einn vill er smellt á Opna skjáborð. Skjáborðið sem búið hefur verið til er síðan vistað í lista yfir öll skjáborð sem notandi hefur sett saman.

Skýrslur bónda

Þessi hluti virkar svipað og skjáborðið. Hver og einn notandi getur sett saman sína útgáfu af skýrslu úr þeim valmöguleikum af upplýsingum sem eru í boði. Hægt er að búa til flokka til að aðgreina skýrslurnar. Þegar valið er að búa til nýja skýrslu, koma upp stuttar leiðbeiningar um notkun. Notandi velur síðan heiti á skýrslu og velur inn í hana þær upplýsingar sem hann vill sjá settar saman í eina skýrslu. Skýrslan er síðan vistuð.

Þessir tveir nýju hlutar í Huppu eru þeir fyrstu sem tilheyra nýju þróunarumhverfi forritsins, sem unnið hefur verið að síðustu misseri. Nú eru rétt um 17 ár síðan skýrsluhaldsforritið var sett í loftið og því orðið tímabært að færa þetta mikilvæga vinnu og bústjórnartæki bænda í nútímalegra umhverfi sem gerir okkur kleift að gera Huppu mun notendavænni til að mynda með því að gera hana skalanlega og hentugri til vinnu í gegnum snjalltæki. Meðan á þessari vinnu stendur munu notendur vinna jöfnum höndum í nýju og gömlu Huppu án þess þó að taka eftir því þegar þeir flakka á milli. Stefnan er að yfirfara alla hluta gömlu Huppu smátt og smátt, endurbæta og hreinsa til um leið og fleiri hlutar verða færðir yfir í nýju Huppu.

Nánar verður fjallað um þetta á næstu á næstu vikum í Bændablaðinu og á heimasíðu RML