Skýrsluhald í jarðrækt forsenda jarðræktarstyrkja og landgreiðslna

Mynd: Í Jörð.is er hægt að skoða loftmyndir með upplýsingum um skráða ræktun og uppskeru á árinu. At…
Mynd: Í Jörð.is er hægt að skoða loftmyndir með upplýsingum um skráða ræktun og uppskeru á árinu. Athygli er vakin á því að þegar hvorki hefur verið skráð ræktun né uppskera, þá eru útlínur túnanna svartar. Það getur verið til þæginda að skoða loftmyndina til að yfirfara hvort allt sé skráð áður skýrsluhaldinu er skilað.

Búið er að opna fyrir umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur í Bændatorginu og er umsóknarfrestur til 20. október. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að hafa skilað skýrsluhaldi í jarðrækt í Jörð.is. Kröfur til skýrsluhalds í jarðrækt í þessu skyni eru þær að spildur séu hnitsettar og að uppskera og ræktun sé skráð. Í skráningu á uppskeru þarf að skrá uppskerumagn og dagsetningar slátta og uppskeru. Ef aðeins hluti af túni er uppskorinn skal gera grein fyrir hversu stór sá hluti var. Í skráningu á ræktun þarf að skrá tegund og yrki ásamt dagsetningu sáningar. Ræktun ársins þarf alltaf að vera hnitsett en vakin er athygli á því að í garðrækt er hægt að gera grein fyrir í hversu stórum hluta akurs mismunandi ræktun á sér stað.

Í fyrra voru greiddir jarðræktarstyrkir vegna 10.811 hektara og einingaverðið var 35.597 krónur á hektara. Landgreiðslur voru greiddar vegna 76.988 hektara og einingaverðið var 3.249 krónur á hektara.

Fjölmargir bændur hafa kosið að nýta sér þjónustu RML við hnitsetningu túna og skráningu jarðræktarskýrsluhaldsins til að tryggja að skýrsluhaldið uppfylli tilsettar kröfur og standist úttekt sem verður framkvæmd af búnaðarsamböndunum fyrir hönd Matvælastofnunar.

Þeir sem hafa hug á að nýta sér þjónustuna eru beðnir um að hafa samband við RML fyrr en síðar í síma 516-5000 eða með tölvupósti á rml@rml.is.

bpb/okg