Skýrsluhald í sauðfjárrækt 2013 - meðalverðslíkan

Uppgjöri sauðfjárræktarinnar fyrir árið 2013 lauk að mestu fyrir mánuði síðan. Í mörg ár hefur einungis tíðkast að birta niðurstöður þess sem afurðir eftir kind, reiknaðar í kílóum kjöts. Nú hafa skýrsluhaldsgögnin verið greind með meðalverðslíkani til að skoða áhrif einstakra þátta á meðalverð og þá afurðir, taldar í krónum eftir hverja vetrarfóðraða á.

Niðurstöður þessara greininga hafa nú verið gerðar aðgengilegar hér á heimasíðunni. Niðurstöðurnar sýna skýrt að mikil tækifæri eru til að bæta afkomu sauðfjárbúa. Samkvæmt líkaninu er hver ær á landinu að skila 19.500 krónum að jafnaði. Breytileikinn er talsverður og á þeim búum þar sem niðurstaðan er best skilar hver ær rúmum 23.000 krónum á meðan að meðalærin, á þeim búum þar sem útkoman er lökust, skilar 15.500 krónum. Þarna munar 7.500 krónum eftir vetrarfóðraða á á búum í efsta og neðsta flokki. Á meðalstóru sauðfjárbúi með 400 kindur, þar sem ærin skilar mestu eru því um þremur milljónum meiri tekjur en á búi af sömu stærð sem er í neðsta flokki.

Þegar gögnin eru skoðuð betur sést glöggt hvað sóknarfærin eru mikil hjá veturgömlu ánum í landinu. Miðað við gögn úr forðagæsluskýrslum eru á bilinu 17-20% af ásettu sauðfé hér á landi, fé á fyrsta ári. Víða hefur fósturdauði verið vandamál í veturgömlum ám en það breytir ekki þeirri staðreynd að á landsvísu er tæpum 12% veturgamalla áa ekki haldið. Mjög er breytilegt eftir landssvæðum hvernig þessum málum er háttað. Í Strandasýslu er þetta hlutfall mjög lágt (2,4%) en á öðrum svæðum s.s. í Norður-Múlasýslu er það mjög hátt (18,6%). Jafnframt má sjá á þessum gögnum að á búunum þar sem arður eftir hverja kind er lítill er miklu hærra hlutfall af veturgömlum ám sem ekki er haldið og sáralítið um fleirlembdar ær ásamt því að þar er hærra hlutfall af geldum ám.

Annað sem rétt er að minnast á er nytjahlutfall sem segir hversu hátt hlutfall af fæddum lömbum kemur til nytja að hausti. Landsmeðaltalið árið 2013 var 91% en á efstu búunum þar sem ærnar skila mestu í krónum talið er það 93,3%. Á búum í neðsta flokki er hlutfallið 88,1%. Í mun á þessu hlutfalli liggja miklar upphæðir en lauslega áætlað rýrir hver prósenta í auknum vanhöldum á 400 kinda búi með 16 kíló fallþunga og góða flokkun tekjur um 90.000 krónur.

Lykillinn að auknum tekjum á sauðfjárbúum er nú sem endranær sá að sem flest lömb fæðist á hverju vori ásamt því að þau komi sem allra flest til nytja að hausti.

Skýrsluhald í sauðfjárrækt 2013 - meðalverðslíkan 

/eib