Leo frá Smjördölum í Flóa, sonur Ægis 22010 og Vigdísar 9113. Mynd frá Nautastöðinni á Hesti.
Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, nú að ágústmánuði liðnum, má nú finna á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram um hádegi þann 11. september. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í þessari frétt.
Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 436 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 115 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu.
Reiknuð meðalnyt 24.392,8 árskúa á búunum 436 var 6.578 kg. eða 6.832 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á umtöluðu uppgjörstímabili. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 436 búum var 55,9.
Mest meðalnyt árskúa að þessu sinni var á búi Göngustaða ehf. á Göngustöðum í Svarfaðardal þar sem 70,2 árskýr mjólkuðu að jafnaði 8.659 kg. á síðustu 12 mánuðum. Næst á eftir kom bú Garðars Guðmundssonar í Hólmi í Landeyjum þar sem 80,8 árskýr skiluðu á tímabilinu meðalnyt upp á 8.582 kg. Þriðja var síðan bú Arnars Bjarna og Berglindar í Gunnbjarnarholti 2 þar sem meðalnyt árskúnna 129,7 reyndist 8.544 kg.
Hér má geta þess að leitast hefur verið við að miða við að búin sem birtast á listanum hafi verið þátttakendur í afurðaskýrsluhaldi mjólkurframleiðenda í það minnsta nærri því ár, en vegna þess hve fátítt er að ný bú bætist í þennan hóp reynir sjaldan á þessa viðmiðun.
Listi yfir hæstu 12 mánaða afurðir mjólkurkúa það sem af er ári er nú birtur í fjórða sinn hér á vef okkar.
Hæstu skráðu 12 mánaða nyt það sem af er ári á Plóma 2686 (f. Jiri 1438, sonur Kaktusar 16003 og dóttursonur Sands 07014. Móðurfaðir Plómu er Dalur 16025), í Gunnbjarnarholti en hæstu 12 mánaða nyt náði hún nú við lok ágúst, 16.779 kg. Önnur á þessum lista er Droplaug 875 (f. Dropi 10077) í Dalbæ í Flóa sem náði 15.164 kg. nyt við lok febrúar sl. Þriðja er svo Klauf 2487 (f. Strákur 10011) í Lambhaga á Rangárvöllum en hæsta 12 mánaða nyt hennar er 15.136 kg. frá því í lok janúar síðastliðins.
Það sem af er þessu ári hafa 49 kýr náð skráðri 13.000 kg. nyt og þar yfir á 12 mánaða tímabili. Af þeim hópi hafa ellefu skilað yfir 14.000 kg. mjólkur á 12 mánuðum og af fimm þeirra hærri nyt en 15.000 kg. á sambærilegum tíma. Síðan hefur það nú gerst að skráð nyt á 12 mánaða tímabili nær talsvert á sautjánda þúsundið sem verður að teljast til allnokkurra tíðinda.
Meðalfjöldi kúa á þeim 115 hreinu kjötframleiðslubúum sem uppgjörið nær yfir reiknaðist 30,8 nú við lok ágúst en árskýrnar á þeim búum reyndust að meðaltali vera 27,4 á tímabilinu. Meðalkjötframleiðsla á þessum búum var 7.900,4 kg. á umræddum 12 mánuðum.
Meðalfallþungi 9.409 ungnauta á aldrinum 12-30 mánaða, sem slátrað var frá öllum þeim búum sem uppgjörið nær yfir, hvort sem um ræðir bú þar sem stunduð var kjötframleiðsla eða mjólkurframleiðsla, eða blanda af hvoru tveggja, undanfarna 12 mánuði, var 257,2 kg. og meðalaldur þeirra gripa við slátrun var 733,8 dagar.
Kjötframleiðslubúið þar sem meðalvöxtur sláturgripa á síðustu 12 mánuðum var mestur, var Reykir í hinum gamla Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði þar sem meðalgripurinn varð 493 daga gamall og óx að meðaltali 680 g. á dag. Næst í röðinni var búið á Efstalandi í Öxnadal þar sem hver meðalgripur óx að jafnaði um 629 g. á 459 dögum. Þriðja búið á þessum lista nú eftir að ágúst hefur runnið sitt skeið er Nýibær undir Eyjafjöllum þar sem 540 daga gamlir gripir náðu að jafnaði að vaxa um 626 g. á dag.
Meðalfallþungi sláturgripa reiknaðist mestur á Breiðabóli á Svalbarðsströnd þar sem 34 gripir vigtuðu að meðaltali 386,3 kg. eftir 810 vaxtardaga. Næstmestur reyndist fallþunginn að meðaltali á Ytra-Hólmi I þar sem 12 gripir vógu að jafnaði 366,8 kg. eftir 721 vaxtardag. Þriðja búið í röðinni hér var Bakkakot þar sem meðalfallþungi 13 sláturgripa var 355,6 kg. eftir 718 vaxtardaga.
Sjá nánar:
rml.is/is/forrit-og-skyrsluhald/nautgriparaekt/huppais-nidurstodur-2025