Sýnataka vegna erfðamengisúrvals að fara af stað

Í september síðast liðnum var ráðstafað fjármunum úr samningum um starfsskilyrði nautgriparæktar til frekari vinnu við verkefnið um erfðamengisúrval í íslenska kúastofninum. Verkefnið er unnið í samstarfi RML, Bændasamtaka Íslands, Landssamband kúabænda og Landbúnaðarháskóla Íslands og nú hefur ríkisvaldið, í gegnum framkvæmdanefnd búvörusamninga, einnig lagt því lið. Þessir fjármunir tryggja að hægt er að fara í frekari sýnatöku til stækkunar svokallaðs viðmiðunarhóps, það er stækka hann úr rétt um 8 þús. gripum í ríflega 12 þúsund gripi. Auðhumla og Kaupfélag Skagfirðinga hafa einnig styrkt verkefnið fjárhagslega enda þarf ekki að fjölyrða um ábata þessa fyrir nautgriparæktina í heild. Þetta verkefni mun skila sér margfalt til baka í gegnum skjótari erfðaframfarir til hagsbóta fyrir greinina.

RML er búið að vera í startholunum síðan fyrirtækið tók við verkefninu með að fara af stað í frekari sýnatöku. Nú er búið að velja þau bú sem farið verður á í þessum áfanga en það eru flest þeirra búa sem farið var á veturinn 2017-18 að viðbættum öðrum eins fjölda. Reiknað er með að taka sýni á 241 búi um allt land.

Á næstu vikum munu ráðunautar RML hafa samband við bændur og finna hentuga tíma til heimsóknar. Í einhverjum tilfellum þurfum við aðstoð bænda við að vera búin að forvinna og setja kýr til hliðar eða aðstoð við að finna kýr og sýnatöku. Eins og ávallt reiknum við með góðu samstarfi við bændur um framgang verkefnisins en þegar til þeirra er leitað er ætíð brugðist við með jákvæðum hætti. Fyrir það er þakkað.

Við biðlum því til bænda að taka vel á móti ráðunautum RML, aðstoða við sýnatöku og sóttvarnir vegna Covid-19.