Sýningar kynbótahrossa – þjónustukönnun RML

Nú að afloknum kynbótasýningum ársins er mikilvægt að fara yfir hvernig til hefur tekist og hvað megi bæta í þjónustunni og eins að undirbúa umfjöllun haustsins sem væntanlega verður m.a. á vegum deildar Félags hrossabænda og Fagráðs í hrossarækt. Hjá RML hefur slík könnun nú verið undirbúin og verður föstudaginn 29. september send öllum sýnendum og eigendum hrossa sem komu til sýningar árin 2021-2023, og sem eru með skráð tölvupóstfang í WorldFeng. Könnunin er ekki persónugreinanleg. Við hjá RML erum mjög þakklát þeim sem gefa sér tíma til að svara könnuninni en tilgangurinn er einfaldlega að leita svara við því hvað megi helst bæta í þeirri þjónustu sem veitt er á kynbótasýningum á vegum RML. Ef einhver sem sýnt hefur hross nú síðustu þrjú árin telur sig ekki hafa fengið könnunina senda þá getur viðkomandi sent upplýsingar um virkt tölvupóstfang sitt á agust@rml.is og við sendum þá hlekk á könnunina um hæl. Könnunin mun standa yfir fram til 13. október.