Tafir á prentun vorbóka 2026 - frétt uppfærð síðdegis 19. desember

Vegna breytinga á framsetningu ákveðinna hluta í vorbókum tafðist um nokkra daga að koma fyrstu prentskrám af stað frá okkur. Fyrstu skrárnar fóru síðan frá Fjárvískerfinu þann 8. desember.

Í þeirri sendingu voru prentskrár fyrir 554 vorbækur. Þegar hlutirnir ganga sæmilega eða þaðan af betur, hefur prentun á borð við þessa tekið í kringum viku (sem er svosem alveg nógu langur tími fyrir þann sem bíður).

Þessar bækur eru því miður alls ekki allar farnar í póst. Samkvæmt upplýsingum frá prentverkinu munu eitthvað um 320 vera farnar og vonandi einhverjar þeirra þegar komnar í hendur bænda. 

Ástæðan fyrir þessari viðbótartöf er bilun í prenturum. Við vonumst til þess að takist að ljúka prentuninni á morgun en fá varð aðra prentsmiðju til þess. Þá er gormunin eftir sem lýkur ekki fyrr en á mánudag. Bókunum verður komið í póst eftir það þó seint sé.

 

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem seinkunin kann að hafa valdið.