Þríeykið í Borgarnesi vinsælast

Glitnir 19-848
Glitnir 19-848

Sauðfjársæðingavertíðin gekk vel í nýliðnum desembermánuði. Veðurfar var hagstætt til flutninga á sæði út um landið en oft hefur ófærð sett strik í reikninginn. Þá fékk hrútakosturinn góðar viðtökur og jukust sæðingar talsvert á milli ára. Útsendir skammtar frá sæðingastöðvunum voru samanlagt 37.297 talsins og fjölgar þeim milli ára um 6.044 skammta. Heldur fleiri skammtar voru sendir út frá Borgarnesi en frá Þorleifskoti þetta árið. Frá Borgarnesi voru sendir út 19.097 skammtar en Þorleifskot 18.200.

Notkunin á hrútunum sem voru á Suðurlandi dreifðist býsna vel á hrútakostinn þó Blossi 16-837 frá Teigi væri þar nokkuð afgerandi vinsælastur. Á Vesturlandi voru það þrír hrútar sem fengu lang mesta notkun. Flestir skammtar voru sendir út af sæði úr Viðari 17-844 frá Bergsstöðum eða 2.240. Glitnir 19-848 frá Efri-Fitjum kemur næstur í röðinni en hann var þó meira pantaður (2.365 skammtar) en nokkur annar hrútur þetta árið en annaði ekki eftirspurn. Þá var Kostur 19-849 frá Ytri-Skógum gríðarvinsæll og þó hann sé hér þriðji í röðinni samkvæmt útsendum skömmtum þá á hann flestar skráðar sæðingar í Fjárvís þegar þetta er ritað. Það á þó eftir að skrá einhvern hluta af sæðingunum og því ekki orðið ljóst hvaða hrútur hefur raunverulega verið mest notaður. Bændur eru hvattir til að ganga frá skráningum á sæðingunum sem fyrst þannig að sem best mat fáist á árangurinn. Af kollóttum hrútum var Tónn 18-855 frá Melum 1 vinsælastur.

Úr eftirtöldum hrútum voru sendir út 1.000 skammtar eða fleiri (fjöldi skammta í sviga):
1. Viðar 17-844 frá Bergsstöðum (2.240) – V
2. Glitnir 19-848 frá Efri-Fitjum (2.050) – V
3. Kostur 19-849 frá Ytri-Skógum (2.005) – V
4. Blossi 16-837 frá Teigi (1.695) – S
5. Amor 17-831 frá Snartarstöðum (1.395) – S
6. Tónn 18-855 frá Melum (1.395) – V
7. Völlur 18-835 frá Snartarstöðum (1.330) – V
8. Börkur 17-842 frá Kjalvararstöðum (1.245) – S
9. Heimaklettur 16-826 frá Hriflu (1.235) – S
10. Garpur 16-838 frá Staðarbakka (1.190) - S
11. Mjölnir 16-828 frá Efri-Fitjum (1.140) – S
12. Sammi 16-841 frá Þóroddsstöðum (1.135) – V
13. Dólgur 14-836 frá Víðikeri (1.125) – V
14. Fálki 17-821 frá Bassastöðum (1.075) – S
15. Fennir 19-857 frá Heydalsá 1 (1.055) – V
16. Rammi 18-834 frá Hesti (1.010) – S

Að loknum sæðingum var ákveðið að fella nokkra hrúta. Í þeim hópi voru Durtur 16-994 frá Hesti og Móri 13-982 frá Bæ sem báðir eiga farsælan feril að baki og luku nú sinni fjórðu vertíð. Móri var jafnframt aldursforseti stöðvahrútanna. Glæpon 17-809 frá Hesti glímdi við heilsufarsvandamál og gaf ekki sæði. Eins var með Guðna 17-814 frá Miðdalsgröf en hann nýttist ekkert í vetur sökum lélegra sæðisgæða. Þá var Bruni 17-832 frá Sveinungsvík lítið pantaður og því ákveðið að fella hann.

/okg