Í ár voraði óvenju snemma með miklum hlýindum víða um land. Spretta hófst því fyrr en venjulega sem getur skapað mögulegt tækifæri til þriggja slátta á túnum í góðri rækt. Hafa þarf samt í huga þegar uppskera er mikil er meira af áburðarefnum fjarlægð úr jarðvegi með uppskerunni, huga þarf því vel að áburðargjöf í þessum aðstæðum og bæta upp það sem er tekið svo við söxum ekki of mikið á næringarforðann í jarðveginum.
Ef skítur hefur verið borinn á eftir 2. slátt ætti að duga að bæta á eftir 2. slátt 25-30 kg/ha af köfnunarefni (N) annars væri rétt að bæta við „léttum“ þrígildum áburði sem gæti skilað 3-9 kg/ha af kalí (K) því kalí hjálpar plöntunum síðan að vetra sig. Fyrir 3. slátt myndum við vilja fá N sem nýtist fljótt því væri trúlega urea áburður síst heppilegur. Eins mætti bera á mjög þunna mykju og sleppa þá alveg tilbúnum áburði á 3. sláttinn.
Að lokum þá verður að gæta vel að því að túnin fara ekki of snögg inn í veturinn og passa verður því að hafa ekki of lága sláttu hæð ef 3. sláttur er tekinn mjög seint.
/okg