Til athugunar vegna skýrsluhalds og greiðslna í nautgriparækt

Við vekjum athygli á því að skýsluhald í nautgriparækt er skilyrði fyrir öllum greiðslum samkvæmt samningi starfsskilyrði nautgriparæktar. Matvælastofnun mun um næstu mánaðamót fresta greiðslum til þeirra sem ekki hafa gert full skil fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins og til grundvallar eru lögð skil á svokölluðu lögbundnu skýrsluhaldi.

Við biðjum menn því að athuga hvort þeir hafi gert full skil, þ.e. skilað lögbundinni skýrslu fyrir þessa mánuði. Það er hægt að sjá í "Lögbundið skýrsluhald>Yfirlit" í Huppu. Ef ekki hafa verið gerð full skil er um að gera að ljúka þeim hið allra fyrsta þannig að komist verði hjá þeim óþægindum sem frestun greiðslna getur haft í för með sér.

Þá minnum við á að eitt af þeim skilyrðum sem er að finna í reglugerð um stuðning við nautgriparækt er að skila ber inn kýrsýnum úr öllum mjólkandi kúm tvisvar sinnum í hverjum ársfjórðungi. Þetta er ákaflega mikilvægt að menn hafi í huga þar sem ekki er hægt að skilja ákvæði reglugerðarinnar á annan veg en að vöntun kýrsýna þýði brottfall greiðslna út árið. Þá er alveg ljóst að afturvirkri leiðréttingu verður ekki við komið í slíkum tilvikum þar sem ekki er hægt að taka sýni aftur í tímann. Hér er því um ræða háalvarlegt mál sem getur haft ákaflega mikla fjárhagslega þýðingu ef misbrestur verður á.

Starfsfólk RML er að sjálfsögðu boðið og búið til aðstoðar ef þörf er á. Síminn hjá okkur er 516 5000.

/gj