Til hamingju með daginn!

Í dag, þann 1. júní, er alþjóðlegi mjólkurdagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Átakinu var ýtt úr vör árið 2001 að frumkvæði Matvæla- og landbúnaðarstofnunnar Sameinuðu þjóðanna til að vekja athygli mikilvægi mjólkur sem hollrar og góðrar fæðu og því hversu mjólkurframeiðsla hefur mikil efnahags- og næringarfræðileg áhrif um alla heimsbyggðina. Á hverju ári síðan hefur ávinningur mjólkur og mjólkurafurða verið kynntur um allan heim, þar á meðal hvernig mjólkurvörur styðja við lífsafkomu meira en eins milljarðs manna.

Á þessu ári er áhersla Alþjóðlega mjólkurdagsins á að sýna hvernig mjólkurframleiðsla hefur dregið úr umhverfisfótspori sínu samhliða því að framleiða næringarríkan mat og skapa milljónum manna lífsviðurværi. Mjólk er ein hollasta og næringarríkasta fæða sem völ er á, uppspretta hágæða próteins, kolvetna, vítamína og steinefna. Þá er mjólkin einhver besti kalkgjafi sem fyrirfinnst. Mjólkin tekur á sig ýmsar myndir en úr henni eru framleiddar vörur eins og smjör, rjómi, ís, ostar, skyr, jógúrt og svo mætti áfram telja. Mjólk er því grunnur að fjölbreyttu og hollu mataræði auk þess að vera einhver bragðbesti matur sem til er.

Auk alls þessa skapar mjólk fjölda manns lífsviðurværi og er einhver mikilvægasta uppspretta næringar í mörgum þróunarlandanna. Hérlendis framleiða um fimmhundruð kúabændur og fjölskyldur þeirra mjólk og skapa þannig ekki bara sér og sínum lifibrauð. Framleiðsla mjólkur hérlendis er orðin hátæknivædd atvinnugrein þar sem enn er haldið í grunngildi fjöldskyldubúsins og veitir fjölda fólks störf í aðfangakeðjunni sem og við úrvinnslu mjólkurinnar.

Það er því alveg tilvalið að halda upp á daginn og gera vel við sig með því að neyta einhverra mjólkurvara úr hinni fjölbreytu flóru íslenskra mjólkurvara sem í boði eru. Af nógu er að taka.

Gleðilegan alþjóðlegan mjólkurdag!