Nú er aftur í boði tilboð á þokugensgreiningum hjá RML í samstarfi við Matís.
Greining á þokusýni sem pantað verður nú í september og október mun kosta 5.600 kr. + vsk. (hefðbundið verð hjá Matís er 7.000 kr. + vsk). Hægt er að senda inn sýni til RML vegna þokugreininga. Einnig er hægt að vísa í sýni sem til eru í sýnasafni ef búið var að arfgerðargreina gripinn hjá Íslenskri erfðagreiningu fyrir 1. september 2025.
Að senda inn sýni
Senda þarf hylki með vefjasýni eða stroksýni úr nefi á starfsstöðvar RML í Reykjavík eða Hvanneyri. Mikilvægt er að sýnið sé haft í sér poka og því fylgi blað þar sem fram kemur að óskað sé eftir þokugensgreiningu og tilgreint númer sýnis og grips. Bóndinn forskráir sýnið á viðkomandi grip í Fjárvís.is undir „forskráning á öðrum arfgerðargreiningum“. Greiningaraðili er Matís.
Beðið um þokugreiningu á sýni sem til er í sýnasafni
Ef til er DNA sýni úr viðkomandi grip hjá Matís eða Íslenskri erfðagreiningu er hægt að óska eftir viðbótargreiningu á því sýni. Þá skal senda tölvupóst merktan „þokugensgreining“ á netfangið dna@rml.is. Í póstinum komi fram sýnanúmer og gripanúmer og upplýsingar um greiðanda.
Einungis er hægt að biðja um að notuð séu sýni sem voru arfgerðargreind fyrir 1. september en sýnasafnið sem er hjá Íslenskri erfðagreiningu verður flutt til Matís á næstu dögum. Ef ekki er til sýni úr viðkomandi gripi og til stendur að láta greina bæði riðuarfgerð og þokugen, er best að taka tvö sýni og senda í sitthvora greininguna.
Viðmiðunardagsetningar
Gert er ráð fyrir að safna saman sýnum í ákveðinn tíma og keyra síðan þokugreiningu. Miðað er við eftirfarandi dagsetningar:
- Sýni/pöntun komin til RML þriðjudaginn 16. september eða fyrr > Niðurstöður frá Matís 30. september.
- Sýni/pöntun komin til RML föstudaginn 26. september eða fyrr > Niðurstöður frá Matís 10. október.
- Sýni/pöntun komin til RML miðvikudaginn 8. október > Niðurstöður frá Matís 22. október
- Sýni/pöntun komin til RML mánudaginn 27. október > Niðurstöður frá Matís 11. nóvember
Niðurstöður
Niðurstöður verða birtar í Fjárvís. Forsenda þess að hægt sé að keyra inn niðurstöðurnar er að búið sé að forskrá sýnið undir „aðrar arfgerðargreiningar“. Þetta á ekki bara við um ný sýni sem send eru inn, einnig sýni sem hafa farið í riðuarfgerðargreiningu og á nú að endurgreina.
/okg