Í dag var keyrð uppfærsla á Fjárvís með ýmsum smávægilegum breytingum. Sú stærsta þeirra er nýtt yfirlit sem ber heitið "yfirlit yfir aðrar arfgerðargreiningar". Eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna yfirlit yfir þá gripi búsins sem sýni til annarra arfgerðargreininga en riðumótstöðu hafa verið forskráð á, sem og niðurstöður þeirra, þar sem við á. Yfirlitið er að finna undir flipanum "yfirlit" efst í græna borðanum í Fjárvís.
Í stærstu yfirlitin var einnig settur möguleikinn á því að fela ákveðna dálka og minnka þannig það magn upplýsinga sem notendur hafa fyrir augunum hverju sinni. Ef dálkar eru faldir og notandi sækir skrá með gögnunum birtast eingöngu gögnin í þeim dálkum sem ekki eru faldir. Á þetta bæði við um excel skrár sem og csv. Einnig vistar Fjárvís núna stærðina á dálkunum svo í næsta skipti sem notendur opna yfirlit þar sem dálkar hafa verið stækkaðir eða minnkaðir birtast þeir í þeirri stærð sem var síðast notuð.
Nú líður að haustskilum og bændur í óða önn að gera grein fyrir sínu fé í Fjárvís svo þeir geti skilað haustgögnum. Hér á eftir fara nokkrir punktar sem algengt er að notendur séu að leita svara við:
- Ef skrá þarf burð á ær sem var áður skráð geld, eða óborin við voruppgjör er einfaldast að fletta ánni upp í „burðaryfirliti“, smella á strikin 3 undir „aðgerðir“ og velja „breyta burði“. Þar er hægt að skrá burð á ær sem áður voru skráðar geldar. Upplýsingar um lömbin er svo hægt að skrá í lambaskráningu.
- Ef lamb hefur verið rangfeðrað er einnig hægt að breyta því í gegnum burðaryfirlitið. Þar er móðurinni flett upp, smellt á „breyta burði“ undir „aðgerðir“ og upplýsingum um föður breytt. Athugið að ekki er hægt að breyta burði eftir að haustgögnum hefur verið skilað og búið komið upp um framleiðsluár.
- Ef lömb frá fyrri árum eru einhverra hluta vegna að þvælast fyrir í kerfinu er hægt að fara í „skrá afdrif lömb“, sem er undir „skráning“, efst í græna borðanum. Nýlega var gerð breyting þar á, þannig að lömb frá fyrri árum koma upp í þessari skráningu.
- Ef breyta þarf afdrifum á lömbum, t.d. lömb sem hefur vantað af fjalli en svo skilað sér, þarf að fara í „breyta afdrifum lömb“, sem er einnig undir „skráning“.
Vonandi koma þessi punktar að gagni. Ef notendur lenda í frekari vandræðum er hægt að senda tölvupóst á fjarvis@rml.is eða hringja í RML í síma 5165000.
/okg