Upplýsingar um fjögur ný ungnaut úr 2016 árgangi

Mímir 16023
Mímir 16023

Komnar eru upplýsingar um fjögur ný ungnaut úr 2016 árgangi á nautaskra.net. Þessi naut eru tilbúin til dreifingar frá Nautastöð BÍ á Hesti og fara til útsendingar á næstu vikum. Þetta eru fyrstu nautin sem koma til dreifingar sem áformað er að bjóða SpermVital-sæði úr en í lok nóvember eru væntanlegir sérfræðingar frá Noregi til þess að frysta sæði með þeirri aðferð. Ef allt gengur að óskum mun SpermVital-sæði því standa til boða úr þessum nautum í desember. Á næstunni verða birtar upplýsingar og leiðbeiningar til bænda um hvernig best verður staðið að notkun og hagnýtingu SpermVital-sæðis.

Þessi naut eru Skírnir 16018 frá Miðfelli 5 í Hrunamannahreppi, undan Gusti 09003 og Mánu 384 Síríusardóttur 02032, Gaddur 16022 frá Klauf í Eyjafirði, undan Gusti 09003 og Skímu 845 Flóadóttur 02029, Mímir 16023 frá Hvanneyri í Andakíl, undan Keip 07054 og Lilju 1575 Úranusardóttur 10081 og Dalur 16025 frá Dalbæ í Flóa, undan Bamba 08049 og Aðalbjörgu 510 Aðalsdóttur 02039.

Skírnir 16018 og Gaddur 16022 eru fyrstu synir Gusts 09003 sem koma til dreifingar.

Að venju er að finna pdf-skjöl með upplýsingum um þessi naut á nautaskra.net sem hægt er nota til útprentunar kjósi menn svo. Þá eru samskonar spjöld að fara í dreifingu til bænda í þessari viku.

/gj