Varðandi greiningar á þokugeni

Aðeins hefur borist af fyrirspurnum varðandi greiningar á þokugeni (frjósemiserfðavísi í kindum) og skal því rifjað upp hvernig fyrirkomulagið á þeim er núna.

Í vor var boðið upp á tilboð á þessum greiningum þar sem hægt var að senda inn sýni til RML eða fá viðbótargreiningu á eldri sýni sem höfðu verið greind hjá Matís eða ÍE. En þessar þokugreiningar voru framkvæmdar hjá Matís. Þetta var tímabundið tilboð í vor.

Gert er ráð fyrir að í haust (September) verði aftur boðið upp á slíkt tilboð og verði þá annað hvort hægt að senda inn sýni sérstaklega í þessa greiningu eða fá viðbótargreiningu á sýni sem búið er að afgreiða hjá ÍE (sýni sem greind eru nú í sumar hjá ÍE eða fyrr). Þetta verður auglýst betur í haust og þá verður hægt að senda inn pantanir á greiningu.

Það er því ekki hægt, eins og er, að panta þokugreiningu á sýni sem verið er að senda inn vegna riðuarfgerðargreininga því þokugreiningar eru ekki í boði hjá ÍE.

Alltaf er þó hægt að senda inn sýni eingöngu vegna þokugreininga til RML þó ekki sé tilboð í gangi, sem verða þá send áfram til Matís til greiningar.
Fullt verð á þeirri greiningu er 7.000 kr. án vsk.

 /hh