Vegvísir við kynbótadóma 2023

Uppfærð útgáfa Vegvísis við kynbótadóma 2023 er komin á vefinn. Í Vegvísi má að venju finna upplýsingar um svo til allt sem snýr að framkvæmd og regluverki kynbótasýninga hrossa; s.s. ræktunarmarkmið, stigunarkvarða (dómsskala), skrokkmál og meðaltöl, járningar, sýningaáætlun og upplýsingar um leyfilegan búnað. Vegvísirinn er þannig grundvallarrit fyrir knapa og ræktendur, starfsmenn sýninga og staðarhaldara.

Knapar eru sérstaklega hvattir til að kynna sér uppfærðar reglur um leyfðan beislabúnað í dómi en breyting frá fyrri árum er að nú er leyfður listi sem almennt gengur úr á að hringamél og stangir eru leyfðar með einum taum og mélalaus búnaður með skilyrðum. Einjárnungar með vogarafli (stöngum) eru ekki leyfðir, sjá bls. 6 og 45-47. Reglur um beislabúnað eru nú að mestu leyti samhljóða fyrir bæði keppni og kynbótasýningar íslenskra hrossa, að undanskildu leyfi til notkunar á Pelham-mélum í keppni. Knapar kynbótasýninga eru sérstaklega beðnir að bera beislabúnað sinn undir sýningarstjóra ef minnsti vafi leikur á hvort um löglegan búnað sé að ræða – og þá fyrir hæfileikadóm/yfirlitsdóm.

Önnur breyting sem vert er að minnast á er að nú gilda sömu reglur um tengsl milli hægs tölts og tölts hjá fimm og fjögurra vetra hrossum fyrir hinar hærri einkunnir. “Til að einkunnin 9,0 náist þarf einkunn fyrir hægt tölt að vera að lágmarki 8,0 hjá fjögurra og fimm vetra hrossum en 8,5 hjá sex vetra eða eldri hrossum.“

Með bestu heillakveðjum inn í sýningasumarið 2023!

Sjá nánar: 
Vegvísir við kynbótadóma

/okg