Verðmæti í lífrænum úrgangi - Gerjunaraðferðin bokashi

Prófuð var ný aðferð við meðhöndlun á lífrænum úrgangi frá kúabúinu og byggðarkjarnanum á Hvanneyri, sem felur í sér stýrða, loftfyrrta gerjun (bokashi). Verkefnið var unnið með styrk úr Framleiðnisjóði landbúnaðarins ásamt framlagi þáttakenda: RML, LbhÍ og Hvanneyrarbúsins. Útbúinn var haugur úr kúamykju og heyfyrningum, ásamt nýslegnu grasi af grasflötum. Í hauginn voru sett ýmis íblöndunarefni, s.s. bentonít leir til að varðveita næringarefni, skeljasandur til að halda sýrustigi innan æskilegra marka og sérstök örverublanda sem var úðað yfir úrgangsmassann við uppsetningu haugsins. Síðan var haugurinn þjappaður til að koma sem mestu lofti úr honum og plast strengt yfir til að loka fyrir súrefni. Síðan var sterkur dúkur settur yfir til að verja plastið og efnið í haugnum fyrir mögulegum skaða af völdum veðra og dýra. Prófun var gerð á innihaldi næringarefna í haugnum að gerjunarferlinu loknu.

Tilgangur verkefnisins var að skoða hvernig gerjunaraðferðin reynist við íslenskar aðstæður og afla reynslu sem myndi nýtast við vinnslu og nýtingu lífrænna úrgangsefna. Einnig að kanna nýtingarmöguleika gerjaðs lífræns úrgangsmassa til áburðar og jarðvegsbóta og sem hráefni til áframhaldandi vinnslu. Með því að loka hringrás næringarefna má koma í veg fyrir óæskileg umhverfisáhrif, spara verulegar peningaupphæðir, endurheimta heilbrigði jarðvegs og bæta lífskjör landsmanna til komandi kynslóða. Einnig verður landbúnaðurinn með þessum hætti minna háður innflutningi aðfangsefna (s.s. tilbúins áburðar og fóðurs). Okkur er ekki kunnugt um að gerjunaraðferðin hafi verið reynd á jafn stórum skala hérlendis, þannig að þetta hefur verið fyrsta tilraun þessarar tegundar hérlendis.

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi, á öllum stigum samfélagsins - hjá einstaklingum, bændum, fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum. Mikill samfélagslegur kostnaður er fólgin í söfnun, flutningi og meðhöndlun á þessum úrgangi og að jafnaði lítill ávinningur, sérstaklega ef úrgangurinn fer í urðun. Með því tapast verðmæt næringarefni. Gerjun á lífrænum úrgangi gæti verið heppileg og hagkvæm leið til að nýta næringarefnin og orkuna í honum til jarðvegsbóta eða annara nytja.

Landbúnaðurinn getur gegnt lykilhlutverki í að viðhalda magni kolefnis sem fyrir er í ræktunarlandi og binda jafnframt kolefni úr andrúmslofti sem lífræn jarðvegsefni og draga þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda, beint (t.d. notkun dísilolíu) eða óbeint (auka notkun áburðarefna úr lífmassa í stað tilbúins áburðar).

Eins og fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar (sjá neðst á síðunni) þá virðist Bokashi-gerjun vera gagnleg og skilvirk leið til að meðhöndla lífrænt hráefni sem fellur til á Íslandi. Sökum þess hve ódýr þessi vinnsla er þarf ekki að ráðast í neinar stórframkvæmdir né þarf flókinn tækjabúnað til vinnslunnar. Bokashi aðferðin gæti hentað íslenskum aðstæðum mjög vel enda fer ferlið fram undir plasti þannig að efnið er varið fyrir veðri og vindum og má geyma þar til það á að notast.

Ávinningur landbúnaðar og þjóðfélagsins alls yrði nýsköpun og viðbótarþekking á endurvinnslu lífræns úrgangs og nýtingu lífrænna áburðarefna. Bokashi aðferðin er sveigjanleg og opnar leið til endurnýtingar á mismunandi skala: Allt frá heimilum til bændabýla og jafnvel fyrirtækja. Möguleikar eru á framhaldsverkefnum, t.d. námsverkefnum ef áhugi verður fyrir hendi, með áherslu á hagnýtt gildi og þróun aðferðarinnar auk noktunarmöguleika afurðarinnar. Vonast er til þess að kynning á niðurstöðum frumkvöðlaverkefnisins vekji áhuga bænda, sveitarfélaga og fyrirtækja í sorphirðu, og annarra áhugasamra.

Sjá nánar: 
Endurnýting lífrænna úrgangsefna með gerjunaraðferð, "bokashi"

/okg