Viðar vinsælastur

Sauðfjársæðingarnar þennan veturinn gengu ágætlega fyrir sig. Veðurguðirnir voru okkur að mestu leyti hliðhollir og dreifing sæðis gekk því vel. Að þessu sinni hafði sæðingastöðin í Þorleifskoti vinninginn í vinsældum. Útsendir skammtar þaðan voru 19.880 og er það um 1.700 fleiri skammtar en fóru þaðan út árið áður. Frá Borgarnesi fóru hinsvegar nokkuð færri skammtar eða 14.905. Í heildina fækkar útsendum skömmtum um ríflega 2.500 á milli ára. Hafa ber þó í huga að á síðasta ári (framleiðsluárið 2021) var mun betri þátttaka en í nokkur ár þar á undan. Það varð samdráttur í sæðingum í desember 2017 (framleiðsluárið 2018), sem fullyrða má að skapaðist af erfiðri stöðu sem þá var kominn upp í greininni sökum hruns á afurðaverði. Heildar fjöldi sæddra áa í ár stefnir í að vera mjög svipaður eða aðeins meiri en framleiðsluárin 2019 og 2020.
Það kemur ekki á óvart að á síðustu árum hafi umfang sæðinga heldur dregist saman vegna þess að fjárbúskapurinn í landinu hefur dregist saman. Ef borin eru saman framleiðsluárin 2017 og 2021 þá fækkar fullorðnum ám á skýrslum um 65.580. Þá eru ýmsir fleiri þættir sem spila inní. Í því sambandi má nefna að yfirvofandi hækkanir á áburðarverði hafa örugglega ekki haft hvetjandi áhrif á þátttökuna í vetur.
Einn hrútur bar nú höfuð og herðar yfir aðra hrúta í vinsældum. Það var Viðar 17-844 frá Bergsstöðum. Hann endurtekur því leikinn frá síðasta ári, að vera vinsælasti hrútur stöðvanna. Eftirspurnin eftir Viðari var enn meiri en í fyrra og annaði hann ekki eftirspurn þrátt fyrir að vera prýðilegur sæðisgjafi. Grettir 20-877 frá Ytri-Skógum var næst vinsælasti hrúturinn og hefur því mórauði liturinn fengið öfluga dreifingu í ár. Þar sem um útsent sæði er að ræða þá endurspegla þessar tölur ekki fullkomlega eftirspurnina þar sem mis vel gengur að ná úr hrútunum.

Úr eftirtöldum hrútum voru sendir út 1.000 skammtar eða fleiri (fjöldi skammta í sviga):
Viðar 17-844 frá Bergsstöðum (2.570) – S
Grettir 20-877 frá Ytri-Skógum (2.040) – S
Hnokki 19-874 frá Garði (1.555) – S
Galli 20-875 frá Hesti (1.415) – V
Kapall 16-869 frá Hvoli (1.400) – V
Gimli 20-876 frá Hesti (1.310) – S
Glitnir 19-848 frá Efri-Fitjum (1.290) – S
Dalur 17-870 frá Ásgarði (1.175) – V
Völlur 18-835 frá Snartarstöðum (1.145) – S
Tónn 18-855 frá Melum (1.145) – S
Kostur 19-849 frá Ytri-Skógum (1.135) - S

Ekki entist öllum hrútunum aldur til að ljúka sæðingavertíðinni en Heimaklettur 16-826 var felldur af heilsufarsástæðum snemma í desember og eins drapst forystuhrúturinn Kjartan áður en sæðistaka hófst. Aðrir hrútar sem kveðja nú stöðvarnar eru: Amor 17-831, Baukur 15-818, Garpur 16-838, Kappi 16-839, Klettur 16-851, Mjölnir 16-828, Selur 17-862, Snar 18-846 og Stapi 16-829. Þessir hrútar eru ýmist taldir fullnotaðir, afar lítil eftirspurn eftir þeim eða heilsutæpir. Þá var ónýtt sæðið í Sel 17-862 og nýttist hann ekkert á sæðingastöðinni í vetur.