Viðbótargreiningar – flutningur lamba með ARR og T137

Líkt og auglýst var í vor varðandi greiningar á sýnum hjá Agrobiogen þá var hægt að velja svokallaða einkeyrslugreiningu, ef menn vildu t.d. einungis láta skoða sæti 171 m.t.t. ARR genasamsætunar.

Hægt er af fá fulla greiningu á sýni sem þegar er búið að greina að hluta til. Viðbótargreiningin mun kosta 1.450 kr. + vsk. Best er að panta þessar greiningar með því að lista upp þau sýnanúmer sem á að greina og senda á Guðrúnu Hildi Gunnarsdóttur (gudrunhildur@rml.is). Gott er að fá sýnin listuð upp í exelskrá, en ekki nauðsynlegt.

Rétt er að hafa í huga að nú hafa verið gefnar út reglur af MAST varðandi flutning á lömbum með verndandi arfgerðir m.t.t. riðu (frá júní 2023). 

Þar er gert ráð fyrir sérstökum undanþágum frá almennum reglum um flutning lamba milli bæja og yfir varnarlínur ef um gripi með verndandi arfgerðir er að ræða en í hverju tilfelli þarf seljandi og kaupandi að sækja um leyfi til þess til MAST. Líkt og þarna kemur fram þarf þó að liggja fyrir að gripurinn beri ekki VRQ arfgerðina. Því getur verið nauðsynlegt að fá fullagreiningu á sýni þar sem aðeins er búið að greina sæti 171 til að vita hvað er í hinum sætunum og útiloka VRQ arfgerðina. Það má líka undirstrika það að þó ekki sé meiningin að flytja gripinn milli búa, heldur bara setja hann á þá er æskilegt að fá úr því skorið hvaða breytileikar eru í öllum sætum ekki síst þegar horft er til ásetningshrúta.

Sjá nánar: 
Reglur MAST varðandi flutning á lömbum með verndandi arfgerðir m.t.t. riðu (frá júní 2023)

/okg