Viðurkenning fyrir besta nautið fætt 2009 afhent

Fjóla I. Kjartansdóttir með viðurkenningu fyri Bolta 09021
Fjóla I. Kjartansdóttir með viðurkenningu fyri Bolta 09021

Á aðalfundi Nautgriparæktarfélags Hrunamanna 28. apríl 2017 á Flúðum var viðurkenning fyrir besta naut fætt árið 2009 frá Nautastöð Bændasamtaka Íslands afhent. Að þessu sinni hlaut kynbótanautið Bolti 09021 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi nafnbótina en ræktendur hans eru Fjóla I. Kjartansdóttir og Sigurði Ágústsson, bændur í Birtingaholti 4. Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður nautgriparæktar hjá RML afhenti Fjólu Kjartansdóttur viðurkenninguna og við það tækifæri var meðfylgjandi mynd tekin. Rétt er að geta þess að ekki var hægt að afhenda viðurkenninguna á fagþingi nautgriparæktarinnar í mars s.l. vegna veðurs. Auk eignargips greiðir Nautastöðin ræktendum besta nautsins 75 þús. krónur.

Þá veitti Nautgriparæktarfélag Hrunamanna þeim Fjólu og Sigurði einnig viðurkenningu en sú venja hefur skpast innan félagsins þegar besta naut árgangs kemur úr félaginu. Fram kom við afhendinguna að þetta er í fjórða sinn á síðustu sjö árum að nauti úr Hrunamannahreppi hlotnast þessi heiður en áður hafa Gyllir 03007 frá Dalbæ, Birtingur 05043 frá Birtingaholti 1 og Koli 06003 frá Sólheimum verið valdir besta naut síns árgangs.

Guðmundur fór nokkrum orðum um Bolta þar sem m.a. fram að hann var fæddur 21. nóvember 2009 í Birtingaholti 4 og var undan Spotta 01028 frá Brúnastöðum í Flóa og Skinnu 192 í Birtingaholti 4 Snotradóttur 01027 frá Selalæk á Rangárvöllum.
Í umsögn um dætur Bolta kemur fram eru afurðakýr og hlutföll verðefna í mjólk eru um meðallag. Þetta eru sérlega stórar og háfættar kýr með mikla bolbýpt og útlögur en yfirlínan er fremur veik. Malir eru sérlega breiðar, hallandi og flatar. Fótstaða er ákaflega sterkleg og góð. Júgurgerð þessara kúa er úrvalsgóð, þau eru vel löguð, ákaflega vel borin með mikla festu og sterkt júgurband. Spenagerð er góð, þeir eru hæfilega stuttir og grannir og vel settir. Dætur Bolta eru góðar í mjöltum og skapið er um meðallag.

Fagráð í nautgriparækt og Nautastöð BÍ óska ræktendum Bolta 09021 til hamingju með viðurkenninguna með þökkum fyrir ræktun þessa góða kynbótagrips.

/gj