Viltu taka fleiri sýni í vor? – Arfgerðargreiningar Sauðfé

Átaksverkefnið í arfgerðargreiningum á príongeninu í kindum (riðuarfgerðargreiningum) er í fullum gangi. Búið er að úthluta 25.000 sýnahylkjum í gegnum verkefnið en til stendur að panta meira af hylkjum.

Þeir sem sem vilja þá nýta sér að taka fleiri sýni í vor, annaðhvort úr fullorðnum kindum eða lömbum á sauðburði, þyrftu að tryggja sér sýnatökuefni í tíma. Næsta pöntun á sýnatökuefni verður gerð í byrjun apríl. Bændur þyrftu því að panta hér á vefnum í síðasta lagi 3. apríl til að tryggja sér sýnatökuefni í tíma, sem væri þá vonandi komið fyrir páska.

Gert er ráð fyrir að koma öllum sýnum til greiningar fyrir lok maí. Verðið mun gilda út vorið, að greining á þessum sex sætum á príongeninu kosti 2.350 kr án vsk., birt með fyrirvara um verulega gengis breytingu (hér miðað við 1 EUR = 143 kr.).

Nú kunna einhverjir að velta fyrir sér hvaða akkur sé í því að taka úr lömbum í vor. Vissulega felst í því sú áhætta að lambið skili sér ekki að hausti eða sé af einherjum ástæðum ekki spennandi ásetningslamb. Hinsvegar gæti verið áhugavert að taka úr líklegum hrútsefnum sem ekki er hægt að segja til um hvaða arfgerð beri nema að greina úr þeim sýni (foreldri/foreldrar þá annaðhvort ekki DNA greindir eða eru arfblendnir fyrir einhverjum af þeim breytileikum sem finnast í þessum 6 sætum). Í þeim tilfellum sem það liggur nánast fyrir að tekið verði sýni úr lambinu nk. haust getur verið hagræði í því að niðurstaðan liggi strax fyrir í sumar.

Sjá nánar: 
Panta viðbótarsýnatökuefni
Upplýsingar um arfgerðargreiningar vegna riðu

/okg