Vinnufundir NorFor á Bifröst og í Hollandi

Upp á síðkastið hefur verið nóg að gera hjá NorFor. RML er hluti af NorFor sem er samnorrænt fóðurmatskerfi. Fyrir rúmri viku var haldinn fundur stjórnar og tengiliða NorFor á Íslandi. Fundurinn var haldinn á Bifröst í Borgarfirði þar sem helstu verkefni fundarins voru að móta stefnu og áherslur næstu ára í starfi NorFor. Tveir aðilar frá RML voru á fundinum en það voru þau Gunnar Guðmundsson sem er í stjórn NorFor og Berglind Ósk Óðinsdóttir sem er tengiliður NorFor við íslenska notendur.

Árlega heldur NorFor ráðstefnu sem er í formi vinnufundar frekar en formlegrar ráðstefnu. Það eru takmörkuð þátttökupláss til að fram náist góðar umræður og þátttakendur geti verið virkir í öllum þeim dagskrárliðum sem boðið er upp á. Hingað til hefur "workshopið" eins og það er kallað alltaf verið haldið á einu Norðurlandanna en í ár var ákveðið að hittast í Hollandi þar sem Eurofins rannsóknarstofan bauðst til samstarfs.

Frá RML fóru 4 ráðunautar sem vinna við fóðrunarráðgjöf. Meðal þess sem farið var yfir var útreikningur á fóðuráætlun sem miðar að sem hagkvæmustu niðurstöðunni fyrir bónda, sem getur auðvitað verið mjög mismunandi nálgun eftir löndum, en þá spilar inní verð á mjólk til bónda og kostnaður bæði við gróffóðuröflun og kaup á kjarnfóðri. Gestafyrirlesarar voru annarsvegar sjálfstætt starfandi ráðunautur í Hollandi sem er sérhæfir sig í ráðgjöf til verktaka um áburðargjöf og gróffóðuröflun og hinsvegar ráðunautar frá Slóveníu sem báru saman notkun forrita til fóðuráætlanagerðar. Í Slóveníu eru mörg forrit í boði en þessir ráðunautar hafa verið að prófa sig áfram með Norfor með góðum árangri.

Ráðstefnugestir heimsóttu kúabú í Hollandi og fengu kynningu á Cowsignals sem er hollensk hugmyndafræði um fyrirbyggjandi ráðgjöf til bænda, sem miðar að því að horfa á kýrnar og fóðrið og koma með ábendingar sem geta hjálpað til við að bæta velferð gripanna og þar með auka framleiðslu og lækka dýralæknakostnað. Einnig fengu ráðstefnugestir góða kynningu í Eurofins í Hollandi.

Hópmyndin sem fylgir fréttinni er tekin á fundinum á Bifröst en hinar voru teknar á vinnufundinum í Hollandi og voru sýndar á Snapchat. Við hvetjum alla til að bæta okkur við á Snapchat í gegnum notandanafnið rml-radunautar.

 

 

bóó/okg