Skráningar á folöldum og fleira tengt skýrsluhaldi

Eftir Höllu Eygló Sveinsdóttur

Þrátt fyrir að ástandið í þjóðfélaginu sé fordæmalaust eins og við höfum heyrt ansi oft á síðustu vikum kemur vorið með fuglasöng og grænum grundum. Fyrstu folöldin fara að fæðast og því rétti tíminn til að rifja svolítið upp um skýrsluhaldið í hrossarækt. Í WorldFeng hefst nýtt skýrsluhaldsár 1. apríl ár hvert. Það þýðir að frá og með þeim degi er ekki hægt að skrá það sem gerðist árið á undan. Þess vegna er ekki lengur hægt að skrá í heimaréttinni folöld sem fæddust á árinu 2019, það er heldur ekki hægt að skrá fyljun hryssna frá því ári. Hafi það gleymst verður að senda grunnskráningarblöð og stóðhestaskýrslur/fyljunarvottorð á pappír til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til að fá það skráð inn. Tekið er á móti skýrsluhaldspappírum á öllum starfsstöðvum RML en þeir eru aðallega skráðir á starfsstöðvunum á Akureyri og á Selfossi og því æskilegt að þeir sem senda pappíra með pósti sendi á heimilisföngin:

RML, Óseyri 2, 603 Akureyri eða RML, Austurvegi 1, 800 Selfoss.

Hvað er heimarétt WorldFengs (WF)?
Heimaréttin hýsir öll þau hross sem skráð eru á viðkomandi eiganda. Þar má á rafrænan hátt skila inn upplýsingum um hrossin. Þarna er hægt að hafa eigendaskipti, grunnskrá folöld, skrá afdrif, geldingu, fyl o.fl. Heimaréttin er verkfæri ræktanda til að halda utan um sitt skýrsluhald. Á heimasíðu RML er að finna leiðbeiningar um notkun á heimarétt WF.

Eftirfarandi skilyrði þarf að uppfylla til að skrá folöld í gegnum heimarétt WF:

  • Ræktandi þarf að hafa aðgang að WF, hægt er að fá frían aðgang í gegnum hestamannafélög og aðildarfélög Félags hrossabænda.
  • Ræktandi þarf að vera skráður þátttakandi í skýrsluhaldi WF og ef viðkomandi er það hefur hann svokölluð föst númer. Föstu númerin eru þær þrjár tölur sem koma aftast í fæðingarnúmeri hrossa. Þessi númer eru tengd uppruna hrossanna og á meðan ræktandi kennir hross sín við sama uppruna hefur hann sömu númeraröð.
  • Fyljun þarf að hafa verið skráð á hryssurnar árið áður. Fylskráningar geta skilað sér inn í WF með misjöfnum hætti en alltaf þarf stóðhestseigandinn eða umsjónarmaður hestsins að samþykkja skráninguna.

Þessar leiðir eru til að skrá fyljun:

    • Stóðhestseigandinn skráir í sinni heimarétt hvaða hryssur voru hjá hestinum. Hryssueigandinn fær sjálfkrafa tilkynningu úr WF í tölvupósti þegar það hefur verið gert. Þetta gerist reyndar ekki nema hryssueigandinn hafi skráð rétt netfang inn í WorldFeng!
    • Hryssueigandi skráir fyljun á hryssurnar sínar í heimarétt sinni. Hryssur birtast síðan í heimarétt stóðhestseigandans og hann þarf að samþykkja að hryssurnar hafi verið hjá hestinum. Geri hann það ekki fer skráning hryssueigandans ekki í gegn. Það er því mjög mikilvægt að stóðhestseigendur fylgist með hvort hryssur eru að bætast inn á hestinn. Skráning hryssueiganda á fyljun er í raun tilkynning til stóðhestseiganda sem hann þarf síðan að staðfesta til að hún verið virk.
    • Stóðhestaskýrslu eða fyljunarvottorði skilað inn til RML, undirrituðu af stóðhestseiganda eða umsjónarmanni hestsins. Ef hryssurnar hafa verið sónarskoðaðar þarf dýralæknir að votta niðurstöðurnar úr henni með sinni undirskrift.

Ef skráning á folöldum kemur ekki í gegnum heimarétt hryssueigandans er hægt að senda grunnskráningar- eða örmerkjablöð til RML.

Hvað þarf til að gerast þátttakandi í skýrsluhaldi?
Hafa þarf samband við Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í síma eða tölvupósti. Ráðgjafarmiðstöðin úthlutar föstum númerum sem eru tengd við þann uppruna sem viðkomandi kennir hross sín við. Þrír síðustu stafirnir í fæðingarnúmeri hrossa eru þessi númer. Upplýsingar um hvernig fæðingarnúmer er uppbyggt má sjá hér á eftir.

Þátttakendum í skýrsluhaldi WF er ætlað að skrá fang hryssna, notkun stóðhesta, fædd folöld, geldingu, afdrif, eigandaskipti og umráðamann. Tilgangurinn með þessum skráningum er að gagnagrunnurinn gefi sem réttasta mynd af hrossastofninum hverju sinni.

Þeir sem ekki hafa aðgang að WF geta skilað inn gögnum til skráningar hjá RML.

Eins og áður hefur komið fram eru félagsmenn í Landssambandi hestamannafélaga og Félagi hrossabænda með frían aðgang að WorldFeng í gegnum sín aðildarfélög. Félagsmenn þurfa hins vegar að hafa samband við sitt félag til að fá úthlutað aðgangi. Þeir sem eru félagsmenn í áður nefndum félögum eru hvattir til að verða sér út um aðgang hafi þeir hann ekki nú þegar.

Hvaða upplýsingar má lesa út úr fæðingarnúmeri hrossa?
Fæðingarnúmer (IS-númer) er í raun kennitala hestsins. Út úr fæðingarnúmerinu má lesa fæðingarland, fæðingarár, kyn, landssvæði sem hrossið er upprunnið á og fast númer ræktanda. Eins og þegar hefur komið fram eru föst númer þau númer sem viðkomandi ræktanda er úthlutað um leið og hann gerist þátttakandi í skýrsluhaldi. Hér fyrir neðan eru tekin tvö dæmi:

Það er því um að gera fyrir hestamenn að setja sig aðeins inn í hvað má lesa út úr fæðingarnúmerinu. Snilldin í þessu kerfi er að ræktandinn getur ár eftir ár notað sömu númer á folöldin sem honum fæðast því alltaf breytist ártalið. Eins er hægt að nota sama númer á hryssu og hest, því kynin hafa sitt hvort númerið (l fyrir hest og 2 fyrir hryssu). Margir ræktendur hafa gaman af því að láta öll afkvæmi uppáhalds hryssna hafa sama númerið því þá er auðveldara að muna fæðingarnúmer afkvæma þeirra.

Geta fjölskyldur haft sameiginlega heimarétt?
Með tilkomu heimaréttar í WF gefst notanda tækifæri til að grunnskrá folöld, hafa eigandaskipti, skrá afdrif hrossa, skrá fyljun, setja inn myndir og ýmislegt fleira. Notendur ættu því ekki að gefa öðrum upp aðgangsorðin sín að WF frekar en aðgang sinn að heimabankanum eða rafrænum skilríkjum. Hins vegar er hægt að sækja um til RML að vera með sameiginlega heimarétt. Í því felst að sá sem er með aðganginn að WF tekur að sér að sjá um skýrsluhaldið fyrir t.d. maka og börn. Framkvæmdin á því er einfaldlega sú að prenta þarf út eyðublað sem er að finna á heimasíðu RML undir „Eyðublöð í hrossarækt“ og kallast „Umboð heimaréttar“. Eyðublaðið er fyllt út og umboðshafinn er sá sem hefur aðganginn að WF en hinir eru umboðsgjafar. Allir aðilar þurfa að skrifa undir þennan pappír og vottur þarf að kvitta fyrir að undirskrifir séu réttar. Foreldrar eða forráðamenn verða að skrifa undir fyrir hönd barna sem eru yngri en 18 ára og prókúruhafar fyrir hönd fyrirtækja. Þegar búið er að fylla út blaðið er það sent til skráningar hjá RML, þegar það hefur verið afgreitt koma öll hross sem skráð eru á umboðsgjafana inn í heimarétt umboðshafans.

Hér á heimasíðunni er að finna ýmsan fróðleik varðandi skýrsluhaldið, meðal annars leiðbeiningar um notkun á heimarétt WF. Ef spurningar vakna varðandi skýrsluhaldið eða eitthvað annað er um að gera að setja sig í samband við starfsmenn RML og við reynum að leysa úr ykkar málum. Hægt er að hringja í síma 516-5000 eða senda tölvupóst á netfangið rml@rml.is, einnig er velkomið að senda tölvupóst beint á netfang undirritaðrar halla@rml.is. Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs sumars.

Sjá meira
Skýrsluhald - fyrstu skrefin
Leiðbeiningar um notkun heimaréttar

hes/okg