Arfgerðargreiningar sauðfjár haustið 2023

RML og Íslensk Erfðagreining (ÍE) hafa nú hafið samstarf varðandi arfgerðargreiningar sauðfjár m.t.t. riðumótstöðu. Munu því sýni sem greind verða á vegum RML haustið 2023 verða rannsökuð hjá ÍE. Hér verður farið nokkrum orðum yfir fyrirkomulag greininga í haust á vegum RML.

Fyrirkomulag
Framkvæmdin í haust verður með svipuðum hætti og sl. vor. Taka þarf vefjasýni úr eyra. Áfram er hægt að panta hylki til sýnatöku í gegnum heimasíðu RML. Þegar bóndinn hefur tekið sýnin, skráir hann sýnin á viðkomandi grip í Fjárvís og sendir þau svo á starfsstöð RML á Hvanneyri, þar sem þeim er safnað saman og sýnatökublöðin varðveitt.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður greininga skili sér í Fjárvís.is ekki síðar en tveim vikum frá því að sýnin berast til RML (með fyrirvara um óviðráðanlegar aðstæður). Miðað verður við að á hverjum þriðjudegi í september og október komi nýjar niðurstöður sem lesnar verða inn í Fjárvís.is.

Verð, sæti og tímarammi
Verð til bænda á hverja greiningu er 1.600 krónur án vsk. með efnis- og umsýslukostnaði. Öll sýni fá 6 sæta greiningu. Áfram gildir að hvatastyrkir (úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar) koma til frádráttar greiningarkostnaði þegar um er að ræða sýni úr afkvæmum gripa sem bera ARR eða T137 (samkvæmt skráningu í Fjárvís.is). Greining á þessum gripum mun því kosta 300 kr. á hvert sýni.

Kjörin sem hér eru kynnt gilda til 10. nóvember 2023. Eftir það tekur við vetrarverð og verður þá verðskráin svipuð og hún var fyrir haustvertíðina og greiningar óreglulegri en næsta vetur verða sýnin send til greiningar á Agrobiogen í Þýskalandi. Næst vor er svo stefnt að því að greiningar hefjist að nýju hjá ÍE.

Úr hvaða gripum?
Mikilvægast er að allir ásetningshrútar landsins séu arfgerðargreindir. Í raun þarf það að verða jafn sjálfsagður hlutur og að bændur merki gripi sýna að bændur viti hvaða arfgerð hrútarnir bera sem er verið að nota til kynbóta. Á bak við hvern ásettan hrút getur þurft að greina nokkra kandídata eftir því hve mikið er vitað um arfgerðir foreldra lambanna. Ef t.d. annað foreldri lambsins er arfblendið fyrir ARR genasamsætunni eru 50% líkur á að lambið hafi erft ARR.

Þá mun það flýta fyrir innleiðingu verndandi arfgerða að greina gimbrarnar en vissulega verður kostnaðarsamt að greina allar þær gimbrar landsins sem til álita koma sem ásetningsgimbrar. Því er mælt með að bændur leggi mesta áherslu á að fylgja eftir notkun hrúta með verndandi arfgerðir nú á fyrstu árum innleiðingarinnar. Þá má líka benda á, sérstaklega í tilfelli ARR genasamsætunar, að sett sé á sem minnst af lömbum undan ARR hrútunum sem ekki bera genasamsætuna til að auka ekki erfðahlutdeild fyrstu ARR hrútanna meira en þarf í stofninum.

Þar sem í raun er kappsmál að lækka tíðni hlutlausu arfgerðarinnar (ARQ/ARQ) og áfram unnið að útrýmingu á VRQ genasamsætunni, sem er sérstaklega mikilvægt þar sem riðuhættan er mest, að þá er hvatt til þess að setja sem mest á af gripum sem bera lítið næmar arfgerðir á meðan framboð af verndandi arfgerðum er takmarkað. Rannsóknum á næmi mismunandi arfgerða er ekki lokið og því geta skilgreiningar á arfgerðum átt eftir að breytast. Vonir standa til að frekari niðurstöður verði kynntar í haust fyrir fengitíma.

Sjá nánar: 
Panta sýnatökubúnað

/okg