Bleik 995 á Gautsstöðum rýfur 100 þús. kg múrinn

Bleik 995 í fjósinu á Gautsstöðum í dag, 11. jan. 2023. Mynd: Pétur Friðriksson
Bleik 995 í fjósinu á Gautsstöðum í dag, 11. jan. 2023. Mynd: Pétur Friðriksson

Það er skammt stórra högga á milli þessa dagana. Nú hafa þau tíðindi orðið að önnur kýr náði að rjúfa 100 þús. kg múrinn og er þar með ein fárra íslenskra kúa til að gera slíkt. Hér er um að ræða Bleik 995 á búi Péturs Friðrikssonar á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd við Eyjafjörð en hún hafði nú um áramótin mjólkað 100.097 kg mjólkur. Við mælingu 31. desember s.l. var Bleik í 19,9 kg dagsnyt þannig að hún hefur að öllum líkindum mjólkað sínu 100 þúsundasta kg mjólkur á þriðja í jólum eða þar um bil. Bleik er fædd 14. ágúst 2009 á Gautsstöðum og er faðir hennar Gráni 1528871-0982 Hersissonur 97033 og móðir hennar er Stássa 873 Stássadóttir 04024. Bleik bar sínum 1. kálfi 31. október 2011 og hefur borið 9 sinnum síðan þá, eða alls 10 sinnum, nú síðast 31. janúar 2022. Mestum afurðum á ári hingað til eru 10.372 kg árið 2016 en mestu mjólkurskeiðsafurðir 13.078 kg á því fimmta. Bleik heldur sér vel miðað við aldur og fyrri störf, eins og sagt er, er fengin við kynbótanautinu Tanna 15065 og er væntanlegur burðardagur 23. april n.k.

RML óskar Pétri á Gautsstöðum til hamingju með þennan farsæla og endingargóða grip sem Bleik er.

Sjá nánar:

Kýr með 100 tonn eða meiri æviafurðir