Bleik 995 í janúar 2023. Mynd: Pétur Friðriksson
Fyrir rétt um viku síðan urðu þau tímamót að Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd mjólkaði sínu 120 þúsundasta kg mjólkur. Þetta er að sjálfsögðu Íslandsmet í æviafurðum sem Bleik hefur reyndar slegið daglega frá því að hún náði metinu fyrir tæpu ári síðan. Bleik hafði um síðustu mánaðamót mjólkað 119.905 kg mjólkur og var þá í 10,2 kg dagsnyt. Að sögn Péturs Friðrikssonar, bónda á Gautsstöðum, er Bleik enn í um 10 kg/dag þannig að líklega fór hún yfir 120 þús. kg þann 9. október s.l.
Bleik hefur sýnt ótrúlega endingu og borið 12 sinnum á ævinni, síðast 12. ágúst 2024. Líklega var það hennar síðasti kálfur en þrátt fyrir að hafa verið sædd fjórum sinnum síðasta vetur hefur hún ekki náð að festa fang. Þetta er óneitanlega mikið afrek hjá kú af kyni sem mjólkar til jafnaðar um 6.600 kg. Ef við reynum að bera þetta saman við önnur kyn þá mjólka Holstein-kýr í Danmörku um 11.800 kg að meðaltali. Til að setja þetta enn frekar í samhengi má segja að þetta jafngildi því að dönsk Holstein-kú hafi náð 214.500 kg æviafurðum en danska metið fyrir Holstein-kýr er 207.384 kg og bandaríska metið er 217 þús. kg.
Frá Bleik hefur áður verið sagt hér á vef RML og fyrir nánari upplýsingar um hana bendum við á þær umfjallanir.
Nýtt Íslandsmet í æviafurðum
Bleik 995 á Gautsstöðum rýfur 100 þús. kg múrinn