Nautgriparækt fréttir

Gangmáladagatal 2024-25

Gangmáladagatal fyrir 2024-25 er á leiðinni til dreifingar með frjótæknum um land allt. Það er því um að gera að minna frjótækninn á hvort hann sé ekki með dagatal nú á næstu dögum. Gangmáladagtalið hefur sýnt sig vera eitthvert albesta hjálpartæki við beiðslisgreiningu og sæðingar sem völ er á og nákvæm og markviss notkun þess stuðlar að betri frjósemi en ella.
Lesa meira

Kynbótamat fyrir lifun kálfa og gang burðar

Enn dregur til tíðinda í kynbótastarfinu í íslenskri nautgriparækt en kynbótamat fyrir „lifun kálfa“ og „gang burðar“ hefur nú verið birt í Huppu og á nautaskrá.is. Kynbótamatið er þróað af Agli Gautasyni, lektor hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Um er að ræða mat fyrir þessa tvo fyrrnefnda eiginleika sem skiptist í nokkrar undireinkunnir en einnig birtast tvær samsettar einkunnir. Vonir standa til að kynbótamatið muni hjálpa okkur að berjast gegn allt of miklum kálfadauða í íslenska kúastofninum en í gagnaskrá kynbótamatsins eru 26% kálfa undan fyrsta kálfs kvígum skráðir dauðfæddir.
Lesa meira

Af kyngreiningu nautasæðis

Undanfarna mánuði hefur starfshópur skipaður aðilum frá Bændasamtökum Íslands, Fagráði í nautgriparækt, Nautastöðinni og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins unnið að undirbúningi við innleiðingu kyngreinds sæðis í íslenskri nautgriparækt. Hópurinn hefur fundað með reglubundnum hætti og skoðað hvaða möguleikar eru í stöðunni og hvernig best verður staðið að innleiðingunni. Fyrir liggur að um tvo valkosti eða tvenns konar tækni er að ræða og eitt af hlutverkum hópsins er að vega og meta hvor tæknin hentar betur. Leitað hefur verið upplýsinga frá framleiðendum varðandi þætti eins og gæði, afköst og verð auk þess sem upplýsinga hefur verið leitað hjá frændum okkar í Danmörku og Noregi. Afköst við kyngreiningu á sæði eru lítil samanborið við töku og frystingu hefðbundins sæðis auk þess sem blöndun fyrir kyngreiningu er mun flóknari en blöndun hefðbundins sæðis og krefst bæði sérhæfðs búnaðar og mannskaps. Eitt af því sem hópurinn er að skoða er hvernig slíkum búnaði verður best fyrir komið og hvernig framkvæmd kyngreiningar verður með þeim hætti að kostnaði sé haldið í lágmarki með nægilegum afköstum fyrir íslenskar aðstæður.
Lesa meira

Fjögur ný naut í notkun

Fjögur ný naut hafa nú verið sett í notkun og um leið fara eldri og mikið notuð naut úr notkun. Þeir sem koma nýir inn eru Magni 20002 frá Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði undan Jörfa 13011 og Blöndu 609 Lagardóttur 07047, Gauti 20008 frá Gautsstöðum á Svalbarðsströnd undan Sjarma 12090 og Hólmfríði 1410 Boltadóttur 09021, Mjölnir 210285 frá Sólvangi í Fnjóskadal undan Kláusi 14031 og Brák 612 Úlladóttur 10089 og Drangur 22004 frá Hólmahjáleigu í Landeyjum undan Bikar 16008 og Tindu 1553 Úranusdóttur 10081. Þeir Magni 20002 og Gauti 20008 hafa áður verið í notkun og þá sem óreynd naut en Mjölnir 21025 og Drangur 22004 koma í fyrsta sinn til notkunar. Rétt er að vekja athygli á að Drangur er fyrsti sonur Bikars 16008 sem kemur til notkunar.
Lesa meira

Bylting í íslenskri nautgriparækt

Fyrir um sex árum síðan hófst undirbúningur að innleiðingu erfðamengisúrvals í íslenskri nautgriparækt. Sú vinna stendur enn, en í lok síðasta árs var stigið stórt skref þegar kynbótamat byggt á erfðamengisaðferðum (erfðamat) var birt í fyrsta skipti. Fagráð í nautgriparækt tók þá ákvörðun að hagnýta þessa aðferð strax í ræktunarstarfinu, byggja val nautkálfa á stöð eingöngu á erfðamati og hætta afkvæmaprófun ungnauta. Í þessu felst gríðarlega mikil breyting sem ekki er hægt að kalla neitt annað en byltingu. Þau naut sem nú eru keypt á stöð eru keypt í þeim tilgangi að þau verði strax notuð eins og um reynd naut væri að ræða, það er naut sem í eldra kerfi höfðu lokið afkvæmaprófun.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í nýliðnum október

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir síðustu 12 mánuði, við lok október, hafa nú verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram undir hádegi þann 13. nóvember. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 461 búi en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 126 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.759,5 árskúa á búunum 461 reiknaðist 6.420 kg. eða 6.505 kg. OLM
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn september

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir næstliðna 12 mánuði, þegar september er á enda runninn, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram að hádegi þann 11. október. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 460 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.697,8 árskúa á búunum 460 reiknaðist 6.418 kg. eða 6.479 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á því 12 mánaða tímabili sem uppgjörið nær yfir. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 53,7.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn ágúst

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, nú þegar ágústmánuður hefur runnið sitt skeið, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram yfir hádegi þann 12. september. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 456 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 125 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.307,7 árskúa á þessum 456 búum reyndist 6.408 kg. eða 6.400 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á því 12 mánaða tímabili sem uppgjörið nær yfir. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 53,3, óbreyttur fjöldi frá því fyrir mánuði.
Lesa meira

Ný naut í notkun í september 2023

Fagráð í nautgriparækt fundaði fyrir skömmu og ákvað að setja fimm ný naut í notkun. Þrjú naut verða tekin úr notkun og fjöldi nauta í notkun því 19 næstu vikurnar. Þau naut sem koma til notkunar núna eru Vorsi 22002 frá Vorsabæ í Landeyjum undan Knetti 16006 og Grein 970 Skellsdóttur 11054, Svarfdal 22006 frá Göngustöðum í Svarfaðardal undan Tanna 15065 og Hörku 481 Lagardóttur 07047, Hnallur 22008 frá Birtingaholti 4 í Hrunamannahreppi undan Skírni 16018 og Litlu-Sleggju 1669 Dropadóttur 10077, Kajak 22009 frá Þorgautsstöðum í Hvítársíðu undan Róðri 16019 og Smáru 315 Bambadóttur 08049 og Ægir 22010 frá Hlemmiskeiði 2 á Skeiðum undan Tanna 15065 og Sæunni 1211 Stáladóttur 14050.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir júlí

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir síðustu 12 mánuði, við lok júlímánaðar, hafa verið birtar á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað skömmu fyrir hádegi þann 11. ágúst. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar höfðu borist mjólkurskýrslur frá 452 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar náði til 126 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.070,4 árskúa á fyrrnefndum 452 búum var 6.403 kg. eða 6.344 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) síðustu 12 mánuðina. Meðalfjöldi árskúa á fyrrgreindum búum var 53,3, óbreyttur fjöldi frá því fyrir mánuði.
Lesa meira