Nú þegar slætti er endanlega lokið er upplagt að skrá uppskeru sumarsins í Jörð.is. Skráningin býður einnig upp á útprentun á gæðastýringareyðublöðum sauðfjárræktarinnar. Þar að auki geta þeir sem skila forðagæsluskýrslu rafrænt nú í haust fært uppskerugögn úr Jörð.is yfir í hana með einföldum hætti.
Fagráð í hrossarækt hefur valið þau bú/ræktendur sem tilnefnd eru til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands fyrir ræktunarárangur. Valið stóð að þessu sinni milli 41 ræktunarbús sem staðist hafði lágmarksskilyrði sem höfð hafa verið til viðmiðunar.
Við minnum á að næsti markaður með greiðslumark í mjólk fer fram þann 1. nóvember n.k. Tilboðum um kaup eða sölu skal skila til Matvælastofnunar í síðasta lagi þann 25. október n.k.
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í september hafa verið reiknaðar og birtar hér á vef okkar. Við uppgjörið hafði verið skilað skýrslum frá 92% af þeim 584 búum sem eru skráð í skýrsluhaldið. Reiknuð meðalnyt 20.914,3 árskúa var 5.631 kg sem er 1 kg lækkun frá síðasta uppgjöri. Meðalfjöldi árskúa á búum þeim sem skýrslum hafði verið skilað frá var 39,0.
Ingvar Björnsson ráðunautur RML hefur nú hafið störf á ný eftir fæðingarorlof. Hann hefur starfað á Akureyri hingað til en mun nú breyta um starfsstöð þar sem hann hefur flust búferlum ásamt fjölskyldu sinni að Hólabaki í Húnavatnssýslu.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga, að til að hljóta fullar beingreiðslur árið 2014 skuli fjöldi vetrarfóðraðs sauðfjár vera að lágmarki 0,65 á hvert ærgildi greiðslumarks á lögbýli. Ákvörðun þessi nær til framleiðslu almanaksárið 2014.
Þessa dagana er vinna við lambadóma í fullum gangi. Til að hægt sé að gera upp niðurstöður einstakra búa og safna saman upplýsingum um afkvæmi sæðingastöðvahrúta er nauðsynlegt að fá þessar upplýsingar inn i skýrsluhaldið. Bændur eru hvattir til að skrá dómana sjálfir inn í fjárvís.is og er miðað við að dómaskráningunni ljúki viku eftir að mælingarnar eru gerðar.
Fóðurblandan hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að verð fóðurs hjá fyrirtækinu lækki í dag, 2. október 2013, vegna lækkunar á hráefnum erlendis frá. Jafnframt kemur fram að lækkunin verði mismikil eftir tegundum. Hins vegar kemur ekki fram hve mikil lækkunin er og fyrirtækið hefur ekki birt uppfærðan verðlista á heimasíðu sinni.
Lífland hefur ákveðið að lækka verð á kjarnfóðri frá og með 1. október að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. Lækkunin er mismunandi eftir tegundum en mest nemur hún 5%. Ástæða verðbreytinganna er lækkun á heimsmarkaðsverði hráefna til fóðurgerðar vegna góðrar uppskeru í Evrópu, samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins.