Fréttir

Kúaskoðun: Niðurstöður og samræmingarfundur

Á árinu 2024 voru skoðaðar 6.552 kýr á 295 búum víðs vegar um landið. Það gerir 22,2 kýr á bú að meðaltali. Helstu niðurstöður kúaskoðunar 2024 hafa verið birtar hérna á vefnum hjá okkur, sjá tengil neðar. Kúaskoðun þessa árs er hafin enda er þetta verkefni sem er stöðugt í gangi. Í síðustu viku hittust dómarar á Hvanneyri til þess að ráða ráðum sínum, samræma beitingu dómskalans og fara yfir ýmis atriði varðandi framkvæmd verkefnisins. Samræmingarfundurinn fór fram samhliða kennslu í kúadómum við Landbúnaðarháskólann. Verkleg kennsla og samræming kúadómara fór fram í fjósinu á Hvanneyri og við það tækifæri smellti Björn Ingi, fjósameistari, af meðfylgjandi mynd af þeim starfsmönnum RML sem koma að kúaskoðun á þessu ári.
Lesa meira

Forskráning eldri sýnahylkja sem ekki hafa verið skráð á bú í Fjárvís

Í dag var lokað fyrir möguleikann „Forskrá eldri hylki“ í Fjárvís. Þeir sem eiga enn sýnahylki sem afgreidd voru á árunum 2022 og 2023 geta engu að síður notað þau, en nú þarf að forskrá þau sýni hjá RML. Alltaf á að senda útfyllt fylgiblöð með sýnum þar sem fram koma upplýsingar um númer sýna og númer gripa. Í þessu tilfelli er sérstaklega mikilvægt að ekki gleymist að láta þessar upplýsingar fylgja með svo hægt verði að forskrá sýnin á rétta gripi.
Lesa meira

Útflutningur hrossa árið 2024

Frá Íslandi fóru alls 1.318 hross á nýliðnu ári. Upprunaættbók íslenska hestsins, WorldFengur, geymir ýmsar nánari upplýsingar um hvað einkennir þennan hóp.
Lesa meira

Þriðja ARR uppsprettan staðfest

Staðfest hefur verið nýtt upphafsbú ARR genasamsætunnar, í Skammadal í Mýrdal. Má því segja að nú sé þriðja ættlínan komin fram sem ber hina verndandi genasamsætu ARR.
Lesa meira

Ársuppgjör skýrslna nautgriparæktarinnar árið 2024

Hér á eftir er farið yfir helstu niðurstöður úr skýrslum nautgriparæktarinnar hér á landi fyrir árið 2024. Grein þessi er samhljóða þeirri sem nú birtist í Bændablaðinu. Eins og gefur að skilja þarf svona yfirlit ákveðinn undirbúning og því þarf einn daginn að ákveða að bíða ekki lengur eftir upplýsingum þeim sem enn kunna að vera ókomnar inn í grunn þann sem gögnin sem unnið er með eru sótt í. Sem dæmi má nefna voru upplýsingarnar um kjötframleiðsluna sóttar til vinnslu fyrir ríflega viku síðan og svipað gildir um mjólkurframleiðsluna, þannig að gögn sem bárust síðar eða eiga eftir að berast ná því miður ekki inn í uppgjörið. Telja má þó víst að þær tölur sem ekki náðu inn fyrir miðjan mánuðinn, breyti litlu sem engu um landsmeðaltöl því heimtur gagna mátti telja góðar á þeim tíma. Fyrst lítum við yfir mjólkurframleiðsluna en fast á eftir fylgir sú yfirferð sem varðar kjötframleiðsluna á nýliðnu ári.
Lesa meira

Skýrsluhald - heimarétt WF

Rétt er að vekja athygli á því að á heimasíðu RML eru nýuppfærðar leiðbeiningar um notkun á heimarétt WorldFengs. Nú í upphafi árs er gott að fara inn í heimaréttina og huga að því hvort eitthvað er ógert þar. Það helsta sem gott er að hafa í huga er: Hefur fang verið skrá inn á þær hryssur sem fóru undir stóðhest sumarið 2024 og hafa stóðhestseigendur samþykkt skráninguna? Eru öll folöldin grunnskráð? Hefur verið merkt við geldingu á þeim folum sem voru geltir árið 2024. Sumir dýralæknar skrá slíkt aðrir ekki? Hefur verið gert grein fyrir afdrifum hrossa? Eru einhver eigendaskipti ófrágengin? Er litaskráning í lagi á öllum hrossunum? Er búin að setja inn nöfn á þau hross sem hafa verið nefnd? Er skráður umráðamaður á öllum hrossum?
Lesa meira

Aðstoð við gerð áburðaráætlana 2025

Áburðarkaup eru stór kostnaðarliður í búrekstri og því mikilvægt að vanda sig við þau, kaupa réttu tegundirnar, ekki meira en þarf en samt nóg til að spara sér ekki til skaða. Með því að stilla saman væntingar til magns uppskeru og heygæða er gott að taka tillit til ólíkra eiginleika túna innan búsins, ræktunarsögu þeirra og fyrirhugaðra nota svo hægt sé að ná markvissari nýtingu búfjáráburðar og vali á hentugri tegund tilbúins áburðar.
Lesa meira

Upptaka af kynningarfundi um kyngreint sæði

Við vekjum athygli á að upptaka af kynningarfundi um kyngreint sæði er nú aðgengileg til áhorfs. Hægt er að nálgast upptökun með því að velja upptökur af fyrirlestrum hérna hægra megin á forsíðunni og fletta svo niður í nautgriparækt eða með því að nota hlekkinn hér fyrir neðan.
Lesa meira

Tilraun með kyngreint nautasæði

Í desember s.l. komu sérfræðingar frá STgenetics og kyngreindu sæði úr íslenskum nautum í fyrsta skipti í sögunni. Tekið var sæði (X-sæði) úr fimm nautum sem koma nú til notkunar. Jafnhliða var tekið sæði úr Angus-nautinu Lunda til kyngreiningar og þá í hina áttina þannig að þar er um ræða sæði sem gefur nautkálfa (Y-sæði). Kyngreint sæði úr Lunda verður til almennrar notkunar utan tilraunar. Nú er þetta sæði að koma til dreifingar með þeim hætti að gerð verður tilraun til þess að sjá mun á fanghlutfalli hefðbundins og kyngreinds sæðis. Við blöndun, meðhöndlun og frystingu á þessu sæði var hverri sæðistöku skipt í tvennt, annar hlutinn var frystur á hefðbundinn hátt en hinn hlutinn kyngreindur og frystur. Sæðinu verður dreift með þeim hætti að ekki liggur fyrir hvort er hvað og er þetta gert til þess að fá sem marktækasta niðurstöðu á árangurinn. Þannig á að vera tryggt að val á gripum og meðhöndlun sæðisins mun ekki hafa áhrif á niðurstöðuna.
Lesa meira

Er búið að skrá sæðingarnar?

Nú styttist í 13. janúar, en til þess að eiga möguleika á hvatastyrkjum vegna notkunar á hrútum með verndandi (V) eða mögulegaverndandi arfgerðir (MV), þarf að ljúka skráningum í Fjárvís í síðasta lagi mánudaginn 13. janúar. Sæðingar þarf að skrá undir „skrá sæðingu“ í Fjárvís (ekki undir „skrá fang“ en þar birtast þessar skráningar sjálfkrafa þegar sæðing er skráð). Til að sækja um hvatastyrkinn þarf í raun ekki að gera annað en að ganga frá þessum skráningum.
Lesa meira