Fréttir

Þokugreiningar – hægagangur á viðbótargreiningum úr DNA sýnasafni

Því miður hefur ekki gengið nógu vel nú í haust að nota DNA úr sýnasafni sem nú er vistað hjá Matís (sýni sem send voru í riðuarfgerðargreiningu hjá ÍE og send inn til greiningar fyrir 1. ágúst) til að greina þokugen. Því verður að sinni hætt að bjóða upp á það að bændur panti viðbótagreiningu á eldri DNA sýni, heldur sendi inn nýtt sýni ef óskað er eftir að fá þokugreiningu. Sýni vegna þokugreiningar má senda á sömu starfsstöðvar RML og taka á móti riðuarfgerðargreiningarsýnum, merkja þessi sýni vel og hafa sér í poka og láta fylgja upplýsingar um grip, bæ og greiðanda. Sýnin eru skráð í Fjárvís undir „forskráning á öðrum arfgðerðargreiningum“. 
Lesa meira

Fyrsta íslenska kýrin sem nær 120 þús. kg mjólkur

Fyrir rétt um viku síðan urðu þau tímamót að Bleik 995 á Gautsstöðum á Svalbarðsströnd mjólkaði sínu 120 þúsundasta kg mjólkur. Þetta er að sjálfsögðu Íslandsmet í æviafurðum sem Bleik hefur reyndar slegið daglega frá því að hún náði metinu fyrir tæpu ári síðan. Bleik hafði um síðustu mánaðamót mjólkað 119.905 kg mjólkur og var þá í 10,2 kg dagsnyt. Að sögn Péturs Friðrikssonar, bónda á Gautsstöðum, er Bleik enn í um 10 kg/dag þannig að líklega fór hún yfir 120 þús. kg þann 9. október s.l.
Lesa meira

Fyrsti kálfurinn af kyngreindu sæði á Íslandi

Í gærkvöldi, 15. október 2025, fæddist fyrsti kálfurinn á Íslandi sem er tilkominn eftir sæðingu með kyngreindu sæði. Kýrin Birna 2309, dóttir Riddara 19011, átti þá nautkálf undan Lunda 23403 eins og ætlunin var því hún var sædd með Y-sæði þann 6. janúar s.l. Meðgöngutíminn reyndist því vera 282 dagar. Þetta er annar kálfur Birnu sem bar sínum fyrsta kálfi fyrir rétt rúmu ári, eða 4. október 2024. Ekki er annað að sjá en bæði móður og kálfi heilsist vel, kálfurinn þróttlegur og þéttvaxinn eins og vera ber með ætternið í huga. Kálfurinn hefur hlotið nafnið Björn, í höfuðið á fjósameistara Hvanneyrarbúsins.
Lesa meira

Tólf bú tilnefnd sem ræktunarbú ársins 2025

Fagráð í hrossarækt hefur valið þau hrossaræktarbú sem tilnefnd eru til árlegrar heiðursviðurkenningar Bændasamtaka Íslands, ræktunarbú ársins. Valið stóð á milli 56 búa sem náð höfðu athyglisverðum árangri á árinu. Tilnefnd eru 12 efstu bú ársins að loknum útreikningi. Reglur fagráðs um ræktunarbú ársins má finna inn á heimasíðu Bændasamtaka Íslands, bondi.is.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn september

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, að septembermánuði loknum, má nú finna á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram um hádegi þann 13. október. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en mun meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í fréttinni. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 433 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær nú til 116 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 23.989,4 árskúa á búunum 433 var 6.575 kg. eða 6.823 kg. OLM
Lesa meira

Glampi 24-943 – bógkreppa

Líkt og tilkynnt var sl. vor, þá kom í ljós á liðnum vetri að hrúturinn Glampi 24-943 frá Hafrafellstungu bæri erfðavísi fyrir bógkreppu. Þetta var niðurstaða erfðaprófs en allir hrútar sem voru á sæðingastöð síðasta vetur voru skimaðir fyrir þessum galla en því miður bárust niðurstöður fyrir Glampa ekki fyrr en eftir fengitíð. Bændur eru hvattir til að taka sýni úr álitlegum ásetningsgripum undan Glampa og fá þau prófuð fyrir bógkreppu. Helmingslíkur eru á að hvert afkvæmi beri gallann. Í raun á það sama við varðandi afkvæmi Viðars 17-844 frá Bergsstöðum og eru bændur einnig hvattir til að taka sýni úr þeim.
Lesa meira

Kynbótamat hrossa haustið 2025

Nú hefur nýtt kynbótamat verið vistað í WorldFeng en öllum kynbótasýningum lauk í annarri viku september. Nú byggir kynbótamatið bæði á kynbótadómum hrossa og einnig á keppnisárangri í ákveðnum keppnisgreinum. Hér er um að ræða töltgreinar (T1, T3, T2 og T4), fjórgangsgreinar (V1, V2 og B-flokki), fimmgangsgreinar (F1, F2 og A-flokki) og skeiðgreinar (250 metra skeiði, 100 metra skeiði og gæðingaskeiði). Keppnisárangur hrossa á alþjóðlegum mótum (e. World ranking) í fullorðinsflokki (meistaraflokki og 1.flokki), stórmótum í gæðingakeppni auk skeiðgreina er nýttur. Kynbótadómarnir eru alls orðnir rúmlega 38 þúsund að tölu og keppnisgögnin telja um 172 þúsund dóma. Það er því ljóst að grunnur kynbótamatsins styrkist ár frá ári og ekki síst á þessu ári með því að bæta keppnisárangri hrossa við. Alls voru felldir 2.187 kynbótadómar í ár í níu löndum.
Lesa meira

Dómar á forystulömbum

Á dögunum dæmdi Oddný Steina Valsdóttir tvílembinga af 100% forystukyni, einstaklega greindarleg og glæsileg systkini sem sýndu greinilega forystuhæfileika þegar þau voru rekin um með hópi lamba sem ekki voru af forystukyni. Þessi systkini eru frá bænum Ási 2 í Ásahrepp í eigu Ástríðar Magnúsdóttur og Hannesar Brynjars Sigurgeirssonar, undan sæðingarhrútunum 24-976 Völundi frá Gróustöðum og 21-105 Prinsessu frá Fossi. Samkvæmt þessum lömbum virðist Völundur ætla að sanna sig til kynbóta á íslenska forystufjárstofninum en í hrútaskránni er honum lýst sem úrvals forystugrip, rólegum og skynsömum, þrátt fyrir ungan aldur.
Lesa meira

Fræðslufundur um kyngreint nautasæði

Föstudaginn 26. september n.k. verður haldinn fræðslufundur um kyngreint nautasæði á TEAMS. Fundurinn hefst kl. 11:00. Á fundinum mun Guðmundur Jóhannesson m.a. fara yfir niðurstöður tilraunarinnar sem gerð var með kyngreint sæði hérlendis s.l. vetur og hvaða atriði þarf að hafa í huga við notkun kyngreinds sæðis. Við hvetjum kúabændur til þess að fylgjast með fundinum en nú þegar kyngreint sæði er komið í almenna notkun er mikilvægt að huga að þeim atriðum sem skipta hvað mestu máli við notkun þess.
Lesa meira

Heiðrún Sigurðardóttir komin til starfa hjá RML

Heiðrún Sigurðardóttir er komin til starfa hjá RML. Hún mun starfa sem ráðunautur á búfjárræktar- og þjónustusviði. Starfsstöð hennar er á skrifstofu RML í Reykjavík. Heiðrún er með doktorsmenntun í búfjárerfðafræði, M.Sc. í búvísindum og B.Sc. í hestafræði. Helstu verkefni hennar verða á sviði búfjárerfðafræði og kynbótastarfs.
Lesa meira