Fréttir

Hrútafundir 2025

Á næstu tveim vikum halda búnaðarsamböndin í samstarfi við RML svokallaða hrútafundi. Þar verður kynntur hrútakostur sæðingastöðvanna, hrútaskránni dreift, ræktunarstarfið rætt og í sumum tilfellum nýta búnaðarsamböndin fundina til verðlaunaveitinga.
Lesa meira

Afkvæmarannsóknir hjá bændum 2025

Afkvæmarannsóknir hafa reynst skilvirkt hjálpartæki í ræktunarstarfinu á mörgum sauðfjárbúum á síðustu áratugum. Til þess að hvetja bændur til að bera saman lambhópa undan hrútum sínum hafa verið greiddir styrkir af fagfé sauðfjárræktarinnar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi riðuarfgerðum leiðir til þess að notkun á veturgömlum hrútum hefur aukist og færri eldri hrútar í notkun. Jafnframt má búast við að sá þröskuldurinn sé orðinn hærri sem veturgamlir hrútar þurfa að komast yfir til að fá áframhaldandi notkun. Gildi afkvæmarannsókna hefur síst minnkað við innleiðingu verndandi og mögulega verndandi arfgerða.
Lesa meira

Bógkreppa – erfðapróf

Þeir sem vilja fá framkvæmt erfðapróf fyrir bógkreppu nú fyrir fengitíma eru hvattir til að senda inn sýni sem fyrst, en nú er verið að safna í sýnakeyrslu á þeim sýnum sem greina þarf fyrir fengitíma. Stefnt er að því að sýni sem verða komin til RML í síðasta lagi 17. nóvember verði komin með niðurstöður eigi síðar en 4. desember, niðurstöður verða síðan lesnar inn í Fjárvís.
Lesa meira

Hrútaskráin 2025-26 er komin á vefinn

Hrútaskrá sauðfjársæðingastöðvanna fyrir 2025-26 er komin á vefinn. Skráin er á hefðbundnu pdf-formi og hægt er nálgast hana undir "Kynbótastarf -> Sauðfjárrækt -> Hrútaskrá" eða með því að nota hlekkinn hér neðar. Skráin er eflaust mörgum kærkomin lesning, nú þegar daginn er tekið að stytta verulega og svartasta skammdegið tekið við. Við vonum að sauðfjárræktendur og aðrir áhugamenn um sauðfjárrækt njóti lesningarinnar þar til prentaða útgáfan kemur út í næstu viku og verður m.a. dreift á hinum svokölluðu hrútafundum. Skráin er 56 síður að stærð, litprentuð í A4-broti og inniheldur upplýsingar um 46 hrúta sem notaðir verða til sæðinga í vetur. Hrútakosturinn er gríðarlega öflugur þrátt fyrir að vera að mestu leyti skipaður lambhrútum. Þannig eru aðeins 11 hrútar sem hafa verið áður á stöð en 35 ungliðar koma nú fram á sjónarsviðið, hver öðrum betri. Þessi mikla endurnýjun er liður í innleiðingu verndandi arfgerða gegn riðu og er ekki annað að sjá en ræktun gegn riðu samhliða ræktun fyrir kjötgæðum og öðrum kostum gangi vonum framar. Í það minnsta ber hrútakosturinn þess merki.
Lesa meira

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir nýliðinn október

Niðurstöður skýrslna nautgriparæktarinnar fyrir síðastliðna 12 mánuði, nú þegar októbermánuður hefur runnið sitt skeið, má nú finna á vef okkar. Niðurstöðurnar byggja á þeim skýrslum sem hafði verið skilað þegar komið var fram undir hádegi þann 11. nóvember. Hér á eftir er farið yfir nokkur atriði úr niðurstöðunum en meiri upplýsingar liggja fyrir í töflum þeim sem tengill er í neðst í fréttinni. Þegar niðurstöðurnar voru reiknaðar hafði verið skilað mjólkurskýrslum frá 429 búum en uppgjör kjötframleiðslunnar nær að þessu sinni til 112 búa þar sem framleitt var nautakjöt en ekki stunduð framleiðsla mjólkur til sölu. Reiknuð meðalnyt 24.152,8 árskúa á búunum 429 var 6.610 kg. eða 6.862 kg. OLM (af orkuleiðréttri mjólk) á uppgjörstímabilinu, nóvember 2024 til október 2025. Meðalfjöldi árskúa á fyrrnefndum 429 búum var 56,3.
Lesa meira

Starfsdagar RML 5.-7. nóvember 2025

Sameiginlegur vinnufundur starfsfólks RML stendur yfir dagana 5.-7. nóvember. Á vinnufundinum kemur starfsfólk fyrirtækisins saman og vinnur að ýmsum verkefnum tengdu starfinu og þróun fyrirtækisins. Að þessu sinni er hann haldinn á Akureyri. Þessa daga verður því ekki hægt að ná beinu sambandi við starfsfólk okkar og ekki er viðvera á starfsstöðvum.
Lesa meira

Lambadóma þarf að skrá eigi síðar en 2. nóvember

Nú er lambadómum almennt lokið. Næsta verkefni er vinnsla hrútaskrár og er sú vinna í fullum gangi. Áríðandi er að fá alla dóma skráða inn í Fjárvís þannig að gögnin nýtist við vinnslu hrútaskrár en jafnframt er það hagur bænda til að fá auknar upplýsingar um eigin kynbótagripi fyrir vinnslu á kynbótamati. Í hrútaskrá verður að vanda birt yfirlit yfir meðaltöl úr dómum. Þá eru ómmælinganiðurstöður nýttar fyrir kynbótamat fyrir bakvöðvaþykkt og fituþykkt og þessar niðurstöður hafa áhrif á kynbótamat fyrir gerð og fitu þar sem þetta eru nátengdir eiginleikar. Þá er æskilegt að sem mest af sláturgögnum sé staðfest í Fjárvís þannig að sem réttastar upplýsingar séu nýttar við keyrslu á kynbótamati fyrir gerð og fitu.
Lesa meira

Hrossaræktin 2025 - Ráðstefna

Lesa meira

Upptaka af fagfundi nautgriparæktarinnar

Fagfundur nautgriparæktarinnar 2025 var haldinn í gær, fimmtudaginn 23. október, á Hvanneyri. Fundurinn var prýðilega sóttur og all margir fylgdust einnig með beinu streymi á netinu. Fyrir þá sem ekki áttu heimangengt eða höfðu ekki tök á því að fylgjast með á netinu, þá hefur upptaka af fundinum verið sett á netið.
Lesa meira

Ársfundur RML

Lesa meira